138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:46]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram umfjöllun minni um efnahagslífið og efnahagslegar forsendur þessa samnings. Eins og fram hefur komið í umsögnum er staða ríkisins og landsins alls mjög erfið. Þó að við höfum fyrst og fremst verið að einbeita okkur að þessari greiðslu eða skuld í umræðunni held ég að við gerum okkur öll fyllilega grein fyrir því að heildarskuldabyrði þjóðarbúsins er gífurlega há og heildarskuldir ríkisins eru líka mjög háar og þetta verður mjög erfitt.

Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti loksins eftir langa bið svokallað Start Report eftir fyrstu endurskoðunina einkenndi umfjöllun bæði talsmanns Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fulltrúa ríkisstjórnarinnar að leggja áherslu á jákvæðu þættina, það væru sem sagt einhverjir jákvæðir þættir sem kæmu þarna fram. Minna var hins vegar talað um þá áhættuþætti sem töluverð áhersla er lögð á í skýrslunni sjálfri. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn talar um mikla áhættu, „large risks“, og að það sé mjög mikilvægt að mikillar aðhaldssemi verði gætt við að fylgja efnahagsáætluninni eftir og þeir tala jafnvel um „enormous policy efforts“, ekki bara að þetta verði mjög erfitt heldur gífurlega erfitt, og því finnst manni svolítið einkennilegt að heyra t.d. hæstv. fjármálaráðherra tala eins og þetta sé eiginlega smámál. Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir fulltrúum Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd að þetta sé nánast eins og eitthvert verkefni sem þurfi að ljúka.

Staðan á Íslandi er mjög erfið og það er alveg geysilega margt sem getur farið úrskeiðis í þessum leiðangri. Ég hef miklar áhyggjur af þeim leiðangri sem ríkisstjórnin er í, að blekkja almenning á Íslandi. Sem dæmi um það má nefna athugasemd sem er höfð eftir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra 20. október þar sem hann talar um að umræður um greiðsluþrot þjóðarbúsins séu á villigötum vegna þess að þar sé verið að tala um að skuldastaðan, sem þá var talin vera einhvers staðar í kringum 240%, væri mjög erfið. Var þá vitnað í Harvard-prófessorinn Kenneth Rogoff, sem starfaði sem aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um að það væri nær fordæmalaust að þjóðir gætu staðið undir erlendri skuldsetningu af stærðargráðunni 100–150%, og þá var talið að erlend skuldastaða Íslands án Icesave væri einhvers staðar í kringum 240%.

Þegar verið var að leggja lokahönd á skýrsluna frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kom síðan í ljós að erlend skuldastaða Íslands var ekki neitt nærri því að vera um 240 eða 250% heldur væri hún 310%, að það væri mjög stór erlend skuldbinding hjá einu ákveðnu fyrirtæki á Íslandi sem hækkaði skuldina mjög mikið á einu bretti, og svo virtist sem Seðlabankinn hafi ekki vitað af því. Nú þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er búinn að koma í heimsókn aftur hefur hann staðfest, án þess að ríkisstjórnin hafi verið upplýst um það, alla vega ekki hæstv. fjármálaráðherra, að staðan sé jafnvel enn verri, að hún sé einhvers staðar í kringum 350%. Þetta eru náttúrlega alveg einstakar tölur þannig að það er ekki að ástæðulausu sem við lesum þessi orð í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þeir hafa gífurlega miklar áhyggjur af þessu.

Ég verð eiginlega að þakka fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kærlega fyrir hvernig þeir hafa komið fram undanfarna daga, það er mjög ánægjulegt má segja. Við eigum því eiginlega ekki að venjast hér í þinginu að fá upplýsingar þegar við spyrjum spurninga, að fá heiðarleg svör. Ég hef þegar í fyrri ræðum mínum nefnt dæmi þar sem ég tel að menn hafi annaðhvort verið að segja ósatt eða hafi hreinlega ekki staðið í stykkinu. Ég tek sem dæmi þegar hæstv. fjármálaráðherra fullyrti að hann hefði ekki hugmynd um að verið væri að ganga frá Icesave-samningnum og tveimur dögum seinna var komið fram skjal upp á 121 blaðsíðu. Annað dæmi er þegar hæstv. fjármálaráðherra var spurður út í það fyrir tveimur dögum hvort það stæðist að skuldir þjóðarbúsins væru enn hærri en áður hefði verið áætlað. En fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa verið að segja okkur nákvæmlega hvernig staðan er og síðan hafa stjórnarliðar komið eftir á og sagt: Þetta er nú allt í lagi vegna þess að skuldir einkaaðila skipta okkur engu máli, aðalatriðið er að einbeita okkur að skuldum ríkisins, sem við að vísu höfum verið að gera í gegnum alla þessa umræðu, en skuldir einkaaðila eru lítið mál. Við munum hvort sem er afskrifa þær eða þeir peningar koma einhvers staðar annars staðar frá.

Mér finnst þetta mjög einkennilegt í ljósi þess að ástæðan fyrir því að við stöndum í þessum sporum, ástæðan fyrir því að við erum í þessari kreppu, er svo að ég viti til skuldir einkaaðila. Það eru skuldir einkaaðila sem gerðu það að verkum að þeir fóru á hausinn og ollu því að íslenska ríkið varð að taka á sig gífurlegar skuldbindingar, fór úr því að vera með erlendar skuldir í kringum 20%, að mig minnir, upp í 120%. Í lok árs 2007 var talað um að erlendar skuldir þjóðarbúsins væru í kringum 550% og þrátt fyrir að höfum farið í gegnum þetta hrun, gjaldþrot þriggja stærstu banka landsins, hafa erlendar skuldir ekki lækkað meira en um 30–40%, eru nú einhvers staðar í kringum 350%. Mér finnst þetta sláandi og mér finnst sláandi að heyra menn tala eins og þetta skipti engu máli.

Ég vil líka taka undir yfirlýsingu frá formönnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og þingflokksformanni Hreyfingarinnar í gær þar sem lagt var til að málinu yrði frestað. Ólafur Ísleifsson, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur tóku undir þetta í gær, lögðu áherslu á að það skipti miklu máli að við hefðum alla heildarmyndina fyrir framan okkur. Miðað við þau samtöl sem ég hef átt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er staðan gífurlega flókin. Nú er bara liðinn einn og hálfur mánuður frá því að síðasta skýrslan hjá þeim kom út og þeir eru enn ekki fyllilega búnir að gera sér gein fyrir því hvernig skuldastaðan er hérna. Og við erum að fara að taka mjög mikla og stóra ákvörðun, ákvörðun sem getur gert það að verkum að íslenskt þjóðarbú, íslenska ríkið, komist jafnvel í greiðsluþrot.

Talað er um að það séu tveir mjög stórir áhættuþættir varðandi þessa skuldbindingu. Annar þeirra — sem ég vona svo sannarlega að verði ekki, og ég er sannfærð um að svo verði ekki, en það er hins vegar áhætta sem þeir meta sem mjög stóra áhættu — er sá að neyðarlögunum verði hnekkt og að verðum búin að skuldbinda okkur hérna. Annað höfum við kannski talað minna um en samt hefur það verið skoðað að einhverju leyti, en það eru endurheimtur á eignum úr þrotabúi Landsbankans. Þriðji áhættuþátturinn, svo að ég gleymi honum ekki, er sá að ekki verði haldið nægilega vel utan um ríkisfjármálin, utan um skuldir ríkissjóðs. Við getum þá staðið frammi fyrir því að við höfum hreinlega ekki gjaldeyri til þess að standa undir öllum þeim skuldbindingum sem Ísland hefur í heildina tekið á sig.

Ég hef alveg geysilegar áhyggjur af þessu. Ég hef líka miklar áhyggjur af því, þó að ég sé hins vegar sannfærð um að það eigi ekki við um hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, að (Forseti hringir.) stór hluti stjórnarliða geri sér hreinlega ekki grein fyrir því hversu alvarleg staðan er, (Forseti hringir.) geri sér ekki grein fyrir því hversu einstök hún er í efnahagskreppum og hversu gífurlega (Forseti hringir.) stórt og erfitt þetta verkefni á eftir að verða.