138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það væri mjög ánægjulegt að fá að heyra hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra viðurkenna að staðan er alveg geysilega erfið og alvarleg, að hæstv. ráðherra gæti einhvern tíma tekið undir það og bara viðurkennt það fyrir þjóðinni, svona svipað eins og við tókum ákvörðun innan íslenska heilbrigðiskerfisins fyrir þó nokkru að upplýsa fólk ef það hefði alvarlega sjúkdóma, að vera ekki að fela það fyrir fólki heldur segja því hvernig staðan er raunverulega.

Það er rannsókn sem ég er alveg viss um að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur kynnt sér sem Kenneth Rogoff og Carmen Reinhart unnu varðandi áhrif af alvarlegum fjármálakreppum. Þar kemur t.d. fram að að meðaltali aukast skuldir ríkissjóða ríkisins út af kreppum yfir þrjú ár um 86%. Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa verið svo heiðarlegir að segja okkur að þessi kreppa sé engin meðaltalskreppa þannig að staðan er mjög alvarleg. Í rannsókn sem þessir sérfræðingar unnu líka, þar sem þeir skoðuðu fjármálakreppur 100 ár aftur í tímann, og í annarri rannsókn, þar sem þeir fóru um 800 ár aftur í tímann, benda þeir á að t.d. raunhúsnæðisverð lækkar um 35% yfir sex ár. Þeir benda á að að meðaltali aukist atvinnuleysi um 7 prósentustig sem nær yfir fjögur ár. (Forseti hringir.) Það sem raunar veldur þessari miklu skuldaaukningu hjá ríkissjóði er ekki endilega það að rétta við viðkomandi bankakerfi heldur er það vegna allra hinna skuldbindinganna sem ríkissjóður tekur á sig (Forseti hringir.) þannig að staðan er geysilega alvarleg.