138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:01]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vitaskuld er staðan alvarleg og staða ríkissjóðs, ef við tökum hana sérstaklega fyrir, er auðvitað miklu verri en hún var a.m.k. á pappírnum t.d. í ársbyrjun 2008. Það er líka alveg satt að ráðstöfunartekjur landsmanna hafa fallið talsvert og þjóðarframleiðsla eða landsframleiðsla hefur lækkað eða því er spáð að hún lækki á þessu ári um u.þ.b. 8% og kannski önnur 2% til viðbótar á næsta ári.

Þetta eru auðvitað afar slæmar fréttir, ég ætla ekki að reyna að draga fjöður yfir það. En það er talsvert langt frá því að þetta lýsi landi sem er á leiðinni í gjaldþrot eða greiðsluþrot, eða þjóð sem býr við slæm lífskjör, því að það gerir það nefnilega alls ekki. Jafnvel með talsvert minni kaupmætti en t.d. á árinu 2007 og jafnvel með minni landsframleiðslu en á árinu 2007 höfum við Íslendingar það í alþjóðlegum og sögulegum samanburði mjög gott og raunar höfum við aldrei búið við betri lífskjör nema e.t.v. á árunum u.þ.b. 2003–2007, því að lífskjörin núna, mæld með kaupmætti ráðstöfunartekna á mann, eru núna svipuð og þau voru upp úr árþúsundamótunum, og því er raunar spáð og ég sé enga ástæðu til að draga þær spár í efa að við verðum komin aftur í svipaða stöðu og við höfðum 2007 eftir fimm, sex ár, 2015 eða 2016 eða þar um bil. Vitaskuld verðum við með eitthvað aðeins meiri skuldir þá en við vorum með 2007, a.m.k. ríkissjóður. Þjóðarbúið verður reyndar með minni skuldir en það helgast af því að bankarnir munu ekki greiða sínar skuldir. Þetta er kannski verri staða en hún var áður en ég held að við verðum samt að vera raunsæ og átta okkur á því að það hefur í ellefu alda sögu Íslands nánast aldrei verið boðið upp (Forseti hringir.) á betri lífskjör en einmitt nú.