138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrsta og þriðja spurning hv. þingmanns eru að mínu mati mér ofviða og um megn að svara. Þetta eru spurningar sem sennilega falla frekar undir það fræðasvið sem mætti kalla dulsálarfræði eða eitthvað slíkt. Ég treysti mér ekki til að svara því hvernig stendur á því að þetta hafi verið unnið með þessum hætti.

Eins og ég fór yfir í ræðu minni, þá birtist það hik og viljaleysi til aðgerða m.a. í því að hæstv. forsætisráðherra sá aldrei ástæðu til að senda bréf til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins líkt og Gunnar leikstjóri sá ástæðu til með þeim afleiðingum sem við höfum séð og rætt. Það er eitthvað sem er alveg ómögulegt fyrir okkur hv. þingmenn að skilja. Menn verða að leita svaranna við því á einhverju öðru sviði en því sem við fjöllum um dags daglega.

Ég tel rétt að rifja upp að við Íslendingar vorum tilbúnir til að eyða fleiri hundruðum millj. kr. í áróðursstarfsemi erlendis til að reyna að komast inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna en upphaflega fjárhagsáætlunin þar var einhvers staðar í kringum 1.000 millj. kr., ef ég man rétt, 1 milljarður kr. Auðvitað hljótum við að spyrjast fyrir um það og það mun koma í ljós, hvort sem það verður áður en við göngum til atkvæða í þingsal eða síðar, hversu miklum fjármunum Íslendingar voru tilbúnir að verja í það að bjarga þjóð sinni frá því að þurfa að undirgangast kröfur sem við sannanlega segjum að við eigum ekki að greiða og það stendur í 2. gr. frumvarpsins sem hér um ræðir. Það verður áhugavert að bera saman það mikla starf sem utanríkisráðuneytið vann til að reyna að koma okkur inn í þetta öryggisráð og það starf sem fór fram til að reyna að kynna sjónarmið Íslands, t.d. gagnvart þingmönnum á þingum Norðurlandanna, ráðherrum í ríkisstjórnum þessara ríkja, (Forseti hringir.) þingmönnum á þingum Breta og Hollendinga og svo mætti lengi halda áfram. Sérstaklega þyrfti þó að skoða hvað varðar þingmenn á bandaríska þinginu.