138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson bar rétt eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson saman það sem íslensk stjórnvöld hafa lagt á sig við að kynna málstað okkar í þeirri stöðu sem við erum nú í við umsóknina um aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Sá samanburður er mjög sláandi enda hefur ákaflega litlu verið varið til að kynna málstað okkar nú þegar hagsmunirnir eru svo óendanlega miklu meiri. En það er líka sláandi að bera saman það sem við höfum varið til að verja málstað okkar við það sem Bretar og Hollendingar hafa varið til þess að greiða úr málinu sín megin og mér þætti áhugavert að heyra álit hv. þingmanns á því. Hver greiðir allan þennan gríðarlega kostnað sem Bretar og Hollendingar lögðu í til að greiða úr málum er varða Icesave í Bretlandi og Hollandi? Það eru Íslendingar. Til viðbótar við ábyrgðina sem var sett á okkur vegna innstæðnanna eru settir ofan á reikninginn milljarðar króna vegna umsýslukostnaðar og væntanlega lögfræðikostnaðar og hugsanlega kostnaðar við að láta berja á okkur. Við eigum að bera þann kostnað. Er hv. þingmaður sammála mér um að þarna birtist hin algjöra niðurlæging sem íslensk stjórnvöld hafa látið yfir sig ganga í málinu?

Jafnframt vil ég taka undir með hv. þingmanni um áhrif þess að tala máli okkar í útlöndum og að það hafi ekki verið gert sem skyldi. En ég vil bæta því við að í þau skipti sem menn hafa reynt, og það hafa til að mynda nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar gert þegar þeir hafa haft tækifæri til að hitt erlenda blaðamenn eða þingmenn, þá hefur það borið alveg ótrúlega mikinn árangur því á daginn kemur að í útlöndum hafa menn almennt ekki hugmynd um hver staða þessa máls raunverulega er og þegar (Forseti hringir.) hún er útskýrð átta þeir sig á henni og það miklu betur heldur en þingmenn stjórnarliðsins á Íslandi.