138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er hárrétt athugasemd hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Það sem hefur komið á daginn er að þingmenn, fjölmiðlamenn, svo ekki sé talað um almenning í þessum löndum, virðast hafa það á tilfinningunni að það sem Íslendingar eigi að borga í þessum málum verði greitt af íslenskum fjármálafyrirtækjum, íslenskum bönkum, þar muni reikningurinn lenda. Það virðist vera alveg ótrúlega útbreiddur misskilningur og þegar þeir menn heyra að íslenskir skattgreiðendur, íslenskur almenningur í þessu fámenna landi eigi að standa straum af þessum gríðarlegu upphæðum þá breytist viðhorfið mjög mikið. Þetta er auðvitað ákveðið spil sem Íslendingar hafa haft á hendi en virðast ekki hafa notað með þeim afleiðingum að ríkisstjórnir þeirra landa sem við eigum við að etja hafa komist upp með að beita því ofbeldi sem hv. þm. Ögmundur Jónasson talar um í grein sinni. Þær hafa komist upp með að beita okkur þeim þvingunum og þeirri kúgun sem leiðir til núverandi niðurstöðu, en við deilum auðvitað þeirri skoðun að hægt sé að snúa málinu, breyta stefnu þess frá því eins og það liggur fyrir þinginu í þessu frumvarpi.

En talandi um þetta þá er auðvitað hægt að bera aðgerðir íslenskra stjórnvalda, íslenska utanríkisráðuneytisins saman við það sem er að gerast varðandi Evrópusambandið. Ekkert virðist eiga að spara til í sambandi við það að setja orku í aðildarumsóknina. Kannski hefur utanríkisþjónustan verið allt of upptekin í þessu Evrópusambandsmáli og ekki haft tíma til að sinna Icesave-málinu. (Forseti hringir.)