138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar um að það sé mjög einkennilegt að við skulum þurfa að standa í því aftur og aftur að reyna að skilja þessa afstöðu, vegna þess að ég held að það sem einkenni okkur sem erum á móti samningnum sé að við trúum því að við munum þurfa að borga. Við trúum því að ef við skrifum t.d. undir sjálfskuldarábyrgð sem einstaklingar og ábyrgðin fellur, þurfum við að borga þá ábyrgð, ólíkt því sem ákveðinn útrásarvíkingur virðist túlka núna í dómsmáli á Íslandi þess efnis að hann hafi talið að hann þyrfti ekki að borga neitt, þó að hann hafi kvittað undir það að hann þyrfti að borga. Það virðist vera svolítið svipuð afstaða þarna hjá stjórnarliðum.

Ég verð að segja að mér finnst líka mjög einkennilegt að margir af þeim þingmönnum sem hafa ekki tekið til máls hér í málinu en ætla sér að styðja það, eru tilbúnir að tjá sig við Morgunblaðið um afstöðu sína, í staðinn fyrir að koma og túlka það hvort þau byggi það á þessari grein, hvort þau byggi það á breytingunum (Forseti hringir.) varðandi 5. gr. og hvað nákvæmlega gerir það að verkum að greinin hefur ekki (Forseti hringir.) þegar tekið gildi miðað við það hver skuldastaða landsins er núna.

(Forseti (ÁRJ): Forseti verður að biðja hv. þingmenn um að virða tímamörk.)