138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:11]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ljóst er að mjög bagalegt er að við hv. þingmenn skulum þurfa að standa hér og reyna að geta okkur til um það hvernig standi á því að haldið sé á málum Íslands með þeim hætti sem gert er, að í einu orðinu skuli vera sagt að við eigum ekki að greiða þetta og það sé sett inn í frumvarpstexta en í hinu orðinu að við verðum að greiða þetta vegna þess að það séu svo miklar ógnir að baki, sem síðan virðist erfitt að lýsa nákvæmlega hverjar eru. Miðað við það sem sagt hefur verið og það sem fram hefur síðan gengið, eins og rætt hefur verið í þessum ræðustól, hvað varðar endurreisn bankanna, lánafyrirgreiðslu frá Norðurlöndunum, samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn o.s.frv., stendur auðvitað eftir að við hv. þingmenn sem stöndum hér og erum að ræða þetta mál núna, þurfum einhvern veginn að reyna að giska á á hvaða grunni hv. þingmenn stjórnarliðsins byggja afstöðu sína, við fáum ekki svör um það frá þeim hvers vegna t.d. hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra hefur hagað vinnu sinni í þessu máli eins og raun ber vitni.