138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hef bent á það áður að samkvæmt 53. gr. þingskapa Alþingis, sem eru lög frá Alþingi og gilda á Íslandi, stendur, með leyfi frú forseta:

„Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni.“

Svo les maður í fjölmiðlum — ég rak augun í þetta rétt áðan, ég hef verið í umræðu í allan dag og hef ekki getað lesið fjölmiðla, það er bara þannig — að þingmenn eru að tjá sig úti í bæ um þetta mál sem er til umræðu á Alþingi. Frú forseti. Þetta er alveg óskapleg niðurlæging og vanvirðing við Alþingi að þessir hv. þingmenn, ég veit ekki hvort maður á að segja það lengur, skuli ekki taka þátt í umræðunni en eru að tjá sig um málið í fjölmiðlum úti í bæ. Ég er reiður yfir þessu, að t.d. Atli Gíslason sé að tjá sig úti í bæ en geti ekki komið hér og haldið ræðu og sagt okkur af hverju í ósköpunum hann ætli að styðja málið eða ég veit ekki einu sinni hvort hann ætlar að styðja það.