138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hef í ræðum mínum farið yfir nokkur meginatriði þessa máls, sem eru reyndar nokkuð mörg, og reynt að tala stuttlega um hvert þeirra þó að hvert og eitt mundi í raun réttlæta heila umræðu hérna í þinginu. Ég var kominn að atriði nr. 46 í upptalningunni og vil geta þess sérstaklega að þau eru ekki í neinni sérstakri mikilvægisröð, enda öll það mikilvæg að vert er að huga að þeim sérstaklega.

Atriði nr. 46 er reyndar dálítið sér á parti því það snýst um hvort við eigum yfir höfuð að vera að ræða þetta mál hér á þinginu, hvort það sé viðeigandi. Mér finnst það nefnilega ekki. Alþingi samþykkti lög um Icesave-málið fyrir nokkrum vikum síðan. Það var gert þannig að ríkisstjórninni var falið af hálfu Alþingis, löggjafarvaldinu sem ríkisstjórninni er ætlað að hlýða, að fara með boðskap Alþingis, lögin, til Breta og Hollendinga, kynna þau fyrir þeim og heyra hvort þeir vildu fallast á þau eða ekki. Ef ekki tækju lögin einfaldlega ekki gildi og menn gætu haldið áfram viðræðum ef þeir kysu svo, reynt að ná nýjum samningum, en ef þeir féllust á þau mundu lögin öðlast gildi.

Í stað þess að fara út með þennan boðskap og segja fulltrúum Breta og Hollendinga að Alþingi hefði talað og þeir gætu annaðhvort sætt sig við þá niðurstöðu eða ekki var farið út og heyrt í þeim hljóðið, hvort þeir vildu hugsanlega breyta einhverju í lögum Alþingis. Ríkisstjórnin tók sem sagt að sér að færa löggjafarvaldið frá Alþingi Íslendinga til Breta og Hollendinga. Í stað þess að fara út til þeirra og kynna þeim orðinn hlut var komið með orðinn hlut inn á Alþingi og okkur var sagt að við ættum að ganga frá þessu máli, samþykkja þetta eins og það væri eða ekki. Meira að segja hæstv. viðskiptaráðherra lýsir því yfir á fundum í útlöndum og í viðtölum við erlenda fjölmiðlamenn að málið færi í gegnum þingið. Hæstv. ráðherra er ekki einu sinni alþingismaður sjálfur en fullyrðir að íslenska þingið muni samþykkja þetta óbreytt. Hann ætlast sem sagt til þess að þingið hræri ekkert í málinu. Vinnan í nefndinni er þá væntanlega bara eitthvert sjónarspil og hann ætlast til þess og raunar segir að Alþingi muni samþykkja það sem því er sagt að samþykkja. Þetta gerir þessi ríkisstjórn sem hafði talað svo mikið fyrir breyttum vinnubrögðum í íslenskum stjórnmálum, fyrir því að lyfta Alþingi aftur til vegs og virðingar á þann stall sem það á heima til þess að treysta þrískiptingu ríkisvaldsins og vald löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Allt er þetta svikið eins afgerandi og hugsast getur.

Þá komum við að atriði nr. 47 sem er tengt þessu, útflutningur löggjafarvalds á Íslandi. Það er sem sagt talið ásættanlegt af hálfu íslenskra stjórnvalda að stjórnvöld í Evrópuríkjum taki ákvörðun um það hvernig íslensk lög eigi að líta út. Ekki bara með hugmyndum um hvað megi fara betur eða hverju þurfi að ná fram, nei, það er beinlínis skrifað lið fyrir lið, grein fyrir grein, hvernig þetta eigi að vera. Síðan er það flutt hingað og kynnt Alþingi sem á að stimpla það og afgreiða eins og einhver afgreiðslustofnun, sem hefur væntanlega ósköp lítið hlutverk og er núna hálfpartinn svipt umræðu- og útskýringarhlutverki sínu líka vegna þess að stjórnarliðar virða þingið varla viðlits. Þeir mæta ekki hingað og reyna ekki að útskýra málstað sinn enda líta þeir væntanlega svo á að það sé ekki þeirra hlutverk að setja lögin, það eigi íslenska ríkisstjórnin og ríkisstjórnir Bretlands og Hollands að gera. Hver er þá tilgangurinn með setu þessara þingmanna Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hér á Alþingi? Hvert er viðhorf þeirra til þessarar stofnunar, elsta löggjafarþings heims?

Atriði nr. 49 varðar líka stöðu Alþingis og stöðu stjórnarskrárinnar sem á að vera öllum þingmönnum Íslendinga heilög og hefur verið það, enda sverja þeir eið að stjórnarskránni, hver einn og einasti. Nú hafa lögmenn tekið upp á því hjá sjálfum sér, því þeir sáu að Alþingi var að villast af leið, að benda á að verulegur vafi leiki á því að frumvarpið sem hér er til umræðu standist stjórnarskrá. Sumir fullyrða reyndar að frumvarpið geri það ekki. Einn þessara manna er líklega virtasti lögfræðingur Íslands á þessu sviði, Sigurður Líndal, en hann hefur verulegar efasemdir um að frumvarpið standist stjórnarskrá. Hann lýsti þeirri skoðun sinni fyrst í blaðagreinum og síðan fyrir fjárlaganefnd þingsins og var tilbúinn til þess að gera það skriflega, skila greinargerð. Aðrir lögmenn sem komu að frumkvæði meiri hlutans til fundar við fjárlaganefnd slógu í og úr og voru alls ekki tilbúnir að láta neitt liggja eftir sig skriflega enda var málflutningur þeirra á þá leið að þeir virtust á engan hátt vissir, þótt þeir vonuðust greinilega til að það sem Alþingi væri að gera stæðist stjórnarskrána.

Hvers vegna kann þetta frumvarp að brjóta í bága við stjórnarskrá? Fyrir því eru nokkrar ástæður. Þær stærstu eru annars vegar sú gífurlega og óljósa skuldsetning sem hefur verið mikið til umræðu hér, þ.e. að skuldsetja eigi þjóðina á þann hátt að ekki sé með nokkru móti hægt að gera sér grein fyrir því hvar mörkin liggi, hversu mikil útgjöldin verði. Það samrýmist varla hlutverki þingsins að skuldbinda þannig þing og Íslendinga framtíðarinnar umfram það sem hægt er að sjá fyrir. Með þessu frumvarpi er líka í rauninni ekki aðeins verið að flytja löggjafarvaldið út heldur dómsvaldið líka. Þar er annað hugsanlegt stjórnarskrárbrot. Það er sem sé verið að segja við Hæstarétt Íslands að honum sé ekki treystandi og það þurfi dómstóla úti í löndum til þess að skera úr um ágreining sem kann að rísa í þessu máli. Þetta tel ég að sé einfaldlega ekki heimilt. Ég tel að Alþingi Íslendinga megi ekki gera þetta, þar af leiðandi standist þessi lög ekki stjórnarskrá og það sé óforsvaranlegt fyrir íslenska alþingismenn að samþykkja þau.

Reyndar finnst mér þetta hreinlega dapurlegt, ekki bara vegna þess að þingmenn stjórnarinnar hafi ekki treyst sér til að standa fyrir máli sínu — það er kannski skiljanlegt þegar hlutirnir eru settir í samhengi við það sem er verið að gera hér — heldur vegna þess að þetta er til vitnis um óheillaþróun í íslenskum stjórnmálum. Ég trúi því ekki að þær aðstæður hefðu komið upp á liðnum áratugum að þeir íslensku þingmenn sem þá sátu hefðu tekið í mál að fella Hæstarétt Íslands úr gildi, ef svo má segja, og skuldsetja þjóðina umfram það sem hugsanlega væri hægt að reikna út.

Atriði nr. 49 eru aðgerðir forsætisráðherra í þessu máli. Þær hafa reyndar verið til umræðu í ræðum annarra þingmanna í kvöld en þær eru allar hinar undarlegustu. Frumkvæðið hefur ekkert verið. Bréfin sem fyrr voru nefnd og send voru forsætisráðherrum Bretlands og Hollands voru ekki skrifuð fyrr en fjölmargir höfðu bent á og rekið á eftir því að það yrði gert. Það er þó ekki mesti skaðinn. Mesti skaðinn er líklega sá, sem ég reyndar nefndi aðeins í andsvari áðan, að þegar hæstv. forsætisráðherra Íslands tjáir sig gerir hann það í rauninni miklu frekar til að verja málstað Breta og Hollendinga en Íslendinga. Dómsdagsspárnar sem forsætisráðherra viðurkenndi að hæstv. ráðherrann sjálfur hefði lekið í fjölmiðla, á sama tíma og fulltrúar fjármálaráðherra sátu úti í London eða Amsterdam á fundi með fulltrúum þarlendra stjórnvalda að reyna að semja í Icesave-málinu, rústuðu samningsstöðu þessara manna sem voru vonandi að reyna að verja málstað okkar í viðræðum við bresk og hollensk stjórnvöld.

Hvað er að þessari ríkisstjórn þegar svona er haldið á þessu stærsta hagsmunamáli Íslands? Þetta hlýtur, frú forseti, að valda okkur verulegum áhyggjum og það hlýtur að réttlæta að við ræðum þetta mál í þaula og tökum ekki ákvarðanir (Forseti hringir.) án þess að hafa komist til botns í þessum grundvallaratriðum.