138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að bregðast við nokkrum atriðum í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Í fyrsta lagi vil ég nefna stjórnarskrárþáttinn sem hann ræddi með mjög kraftmiklu orðalagi. Þetta er auðvitað stóralvarlegt mál og í tilvikum sem þessum hefur Alþingi tekið alvarlega svona athugasemdir sem hafa komið frá virtum lögmönnum úti í bæ. Hér á þingi hefur auðvitað verið rætt um þetta mál, bæði við 1. umr., 2. umr. og í nefndarálitum. Það hefur verið vakin athygli á stjórnarskrárþættinum í þessu máli en við höfum ekki úr þessum stól eða í neinum gögnum sem liggja fyrir, enn þá a.m.k., séð neitt sem réttlætir stöðu ríkisstjórnarinnar gagnvart stjórnarskránni í þessu máli. Það kann að vera að það eigi eftir að breytast en enn sem komið er hefur ekkert komið frá ríkisstjórninni eða stuðningsmönnum hennar í þessu efni sem hönd er á festandi.

Ég vildi líka taka upp það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði varðandi ummæli hæstv. ráðherra um það hvernig þetta mál fer á þingi. Auðvitað er athyglisvert að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skuli hafa leyft sér að fullyrða við erlenda fjölmiðla, og áreiðanlega við erlenda ráðamenn líka, að þetta mál yrði samþykkt hér óbreytt. Það er alveg öruggt að hann hefur sagt það með þeim hætti. Þetta er í takt við það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur líka sagt, a.m.k. í samskiptum við fjölmiðla, og gefið í skyn að það væri alveg klárt að þetta mál hefði meiri hluta á þinginu. Ég bendi á að ótal margir þingmenn eiga eftir að tjá sig í þessu máli. Hæstv. fjármálaráðherra telur sig vita hvernig þeir ætla að greiða atkvæði en (Forseti hringir.) þeir hafa ekki látið sína skoðun í ljósi enn þá.