138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta hafi verið holl lesning fyrir þingmenn í flokki hæstv. fjármálaráðherra. Það er mikilvægt að menn hafi það hugfast að hvað sem líður ofbeldi í garð þessara þingmanna, það orð hefur verið notað hér nokkrum sinnum í ræðustól — hv. þm. Birgitta Jónsdóttir lagði til eftir atkvæðagreiðslu í sumar að tekið yrði upp sérstakt eineltisprógramm vegna þess hvernig komið hefði verið fram við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Menn héldu sumir að hún væri að grínast með þessum orðum en svo var alls ekki því að þingmenn þess flokks höfðu verið beittir alveg ótrúlegu harðræði og þvingunum, hreinum og klárum þvingunum, eins og síðar kom í ljós, til þess að knýja fram hjá þeim afstöðu sem væri þóknanleg flokksforustunni. Það er vonandi að í þessu máli gerist ekki slíkt hið sama.

Það er líka mikilvægt að hafa hugfast fyrir þessa sömu þingmenn að það sem kannski hefur verið notað einna mest til þess að knýja fram afstöðu sem er flokksforustunni — og með flokksforustu er ég að tala um formann flokksins, hæstv. fjármálaráðherra — þóknanleg, eru fullyrðingar um að ríkisstjórnin falli ef þetta mál fær ekki brautargengi. Það hefur reyndar verið notað áður í öðrum málum, til að mynda varðandi Evrópusambandið, en sérstaklega í þessu máli.

Ég lýsi því hér með yfir, og hef reyndar gert áður, að það er fráleitt að ætla að ríkisstjórnin sé fallin ef þetta mál fellur. Ég mun ekki nýta mér það eða mínir flokksmenn gegn ríkisstjórninni til þess að reyna að fella stjórnina sjálfa þó að þetta mál falli. Raunar mundi ég fyrst telja ríkisstjórnina (Forseti hringir.) almennilega starfhæfa sem ríkisstjórn til að gæta hagsmuna Íslands ef þetta mál yrði fellt.