138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Munurinn er svo sannarlega sláandi á því hvernig þingmenn stjórnarliðsins tjá sig í stjórn miðað við það sem þeir gerðu í stjórnarandstöðu. Hann er sérstaklega sláandi vegna þess að það gafst alveg ótrúlegt tækifæri — ég veit reyndar ekki hvort tækifæri er rétta orðið, við skulum segja að skapast hafi alveg einstakar aðstæður til þess að menn gætu sýnt fram á að þeim væri alvara með öllum þeim yfirlýsingum sem féllu í kjölfar efnahagshrunsins síðastliðið haust, um það að vinnubrögð ættu að breytast í íslenskum stjórnmálum. Kannski eru aðstæður heldur ekki rétta orðið, heldur miklu frekar próf.

Með þessu máli varð til próf til þess að sýna fram á það hvort einhver alvara væri á bak við allar þessar yfirlýsingar um breytt vinnubrögð, um sjálfstæði þingmanna, um sjálfstæði þingsins, löggjafans. Ef menn fylgja ekki því sem þeir hafa haldið fram um þessi atriði í þessu máli, þar sem hagsmunirnir eru nánast óendanlega miklir fyrir íslenskt samfélag, ekki bara efnahagslega heldur fyrir alla framtíð samfélagsins, þá á þetta líklega aldrei við. Þeir mundu þá aldrei standa á sannfæringu sinni eða sýna fram á breytt vinnubrögð.

Með þessu máli fáum við úr því skorið hvort einhver minnsta alvara var á bak við allt talið, ekki bara öll síðustu ár, áratugi í tilviki sumra þingmanna, hvort alvara var á bak við loforðin, margítrekuð loforð um ný vinnubrögð í íslenskum stjórnmálum, (Forseti hringir.) í kjölfar efnahagshrunsins síðasta haust.