138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að þegar menn horfa aftur í tímann að 10, 15 árum liðnum muni mönnum finnast sú afstaða og sú vinnsla sem fer fram í hv. efnahags- og skattanefnd til háborinnar skammar. Það var mjög lítið rætt um þessi mál, málið var tekið út með offorsi og menn fóru í rauninni ekki í gegnum eitt eða neitt. Ég tel að þessi forsenda sé þegar til staðar. Ég gagnrýndi það í nefndinni að Seðlabankinn notar t.d. 5,55%, þessa frægu svavarsvexti, til þess að núvirða skuldina. Það er alveg fráleitt. Menn nota núvirðingu til þess að bera saman greiðslur í framtíðinni við nútímann en það á að miða við einhverja skikkanlega ávöxtunarkröfu. Ég hefði talið að ávöxtunarkrafan ætti að vera í takt við landsframleiðslu, aukningu hennar, hagvöxt eða miða við einhverja alþjóðlega vexti, kannski 1% eða 2%, en að keyra niður upphæðina með því að nota mjög háa ávöxtunarkröfu í núvirðingu, það er algjörlega fráleitt.

Ég hafði mjög margt við álit Seðlabankans að athuga, t.d. að afgangur af vöruskiptum og viðskiptajöfnuður á að vera ævintýralega hár. Það á ekki að gerast með því að það verði ævintýraleg aukning á útflutningi. Nei, það á að gerast með því að minnka innflutning. Hvað þýðir það á mannamáli, frú forseti? Íslendingar eiga ekki að kaupa þvottavélar og bíla og hafa það sem menn kalla sæmileg lífskjör á Íslandi. Seðlabankinn reiknar hreinlega með því að hér á Íslandi búi virkilega fátækt fólk.

Nú langar mig til að spyrja, ef hæstv. ríkisstjórn væri til staðar, þessi ágæta velferðarstjórn: Er það markmið hennar að Íslendingar verði virkilega fátækir? Þá er ég ekki að tala um að menn eigi ekki peninga fyrir bensíni á bílinn sinn. (Forseti hringir.)