138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir svar hans. Hann kom einmitt inn á það sem var seinni liðurinn í spurningunni minni, þ.e. greiðsluflæðið eða möguleika okkar á því að standa undir þessari skuldbindingu. Þar komum við að viðskiptajöfnuðinum. Nú þegar á þessu ári er talið að þetta verði með betri árum varðandi afgang af vöruskiptum við útlönd. Síðustu tölur sem ég sá sýndu einmitt þetta sem þingmaðurinn benti á, að útflutningurinn hefur jafnvel dregist aðeins saman í samanburði við árið 2008 en innflutningurinn hefur dregist svo geysilega mikið saman að það er afgangur af inn- og útflutningi. Hins vegar þegar heildarviðskiptajöfnuðurinn er tekinn inn er geysilegt útflæði á vaxtagreiðslum úr landinu. Afgangurinn er því mjög lítill eða enginn af hinum mikla viðskiptajöfnuði sem á að nota til þess að borga gjaldeyrinn.

Ég spyr því: Hefur einhvers staðar komið fram í þessari litlu umfjöllun efnahags- og skattanefndar áætlun eða yfirlit yfir greiðsluflæði eða sjóðstreymi þjóðarbúsins í heild? Nú eru væntanlega til upplýsingar um hverju ríkissjóður þarf að standa undir. Það eru væntanlega til upplýsingar varðandi hvað Landsvirkjun þarf að borga, hvað sveitarfélögin þurfa að borga og ég geri ráð fyrir að langflest fyrirtæki geri svona áætlun líka. Er til einhvers staðar heildaráætlun yfir hvað við munum þurfa að borga, þótt það sé ekki nema bara næstu sjö árin þar til við eigum að fara að borga af Icesave? Verður til einhver sjóður þegar að því kemur að við þurfum að fara að borga Icesave af gjaldeyri hér í landinu?