138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef nefnt áður að ef sæmilega rekið íslenskt fyrirtæki ætlaði að gera samning við erlent fyrirtæki og um þennan samning ættu að gilda lög í landi erlenda fyrirtækisins, þá hlyti íslenska fyrirtækið að vilja vita hvað fælist í þeim lögum og kynna sér það. Auk þess væri nánast sjálfgefið — ekki nánast, það væri algerlega sjálfgefið — að fyrirtækið mundi reikna út væntanlegar tekjur og gjöld af því sem það væri að leggja út í. Þess vegna finnst mér svo óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa gert þetta með þessa 700–1.000 milljarða skuldbindingu. En hv. þingmaður hefur staðfest það sem við reyndar vissum eiginlega fyrir að hefði ekki verið gert í nefndinni en vonandi bætir nefndin eitthvað úr því á næstu dögum, það verður þá breyting frá því sem áður var en ekki veitir af.

Það sem ég vildi sérstaklega nefna er sú mynd sem hv. þingmaður dró upp af því ástandi sem kynni að skapast í framtíðinni í landinu ef hlutirnir þróuðust hér á verri veg og ég óttast reyndar að veruleg hætta sé á því, en eins og getið var um hér áðan eru afar litlar líkur á því að nægur gjaldeyrir skapist til að við getum haldið uppi þeim lífsgæðum sem við höfum vanist. Getur hv. þingmaður tekið undir það með mér að fólk, alla vega ríkisstjórnin, virðist ekki gera sér grein fyrir því að þær tölur sem hér er verið að sýsla með munu hafa áhrif á daglegt líf hvers einasta Íslendings og þegar menn sitja uppi með það að þurfa að borga stóran hluta af gjaldeyristekjum þjóðarinnar til útlanda þá er ómögulegt að viðhalda þeim lífsgæðum sem Íslendingar hafa vanist. (Forseti hringir.)