138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

breytingar á frítekjumarki.

[12:10]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn og þakka líka yfirlýsingu hans um liðsinni við að taka á endurskoðun almannatryggingakerfisins. Í stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir að endurskoðun á almannatryggingakerfinu verði leidd til lykta. Verkefnastjórn hefur verið að störfum um það verkefni á undanförnum árum, tillögur hennar liggja nú fyrir og eru aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins. Við höfum verið að leita álits hagsmunasamtaka á þeim tillögum.

Einn grunnþátturinn í þeirri tillögugerð er að búið verði til svigrúm fyrir aukið frítekjumark. Það er ekki alveg rétt sem kom fram í fyrirspurninni að frítekjumark öryrkja sé að öllu leyti þetta miklu lægri en frítekjumark atvinnulausra. Frítekjumark atvinnulausra tekur til allra tekna, lífeyristekna, tilfallandi atvinnutekna og fjármagnstekna en hið tilgreinda frítekjumark sem þingmaðurinn nefndi er einungis frítekjumark fjármagnstekna hjá lífeyrisþegum. Eftir sem áður njóta þeir einnig frítekjumarks við atvinnutekjur og öryrkjar hafa umtalsvert hærra frítekjumark að því leyti en ellilífeyrisþegar. En það er mjög óæskilegt að frítekjumörk þessara hópa séu svo ólík. Það er líka óæskilegt að þau séu svona lág því að þar með skerða mjög lágar tekjur bætur lífeyristrygginga.

Hv. þingmaður spyr eðlilega hvort vænta megi áhrifa á fjárlögin vegna þessa á næsta ári. Við höfum lagt upp með að lögfesta meginreglurnar á næsta ári og leggjum þar með grunninn fyrir frítekjumarkið. Síðan munum við láta breytingarnar á næsta ári rúmast innan þess ramma sem fjárlögin marka okkur í almannatryggingakerfinu en löggjöfin markar þá framtíðarstefnu um það hvernig við munum bæta kerfið þegar hagur vænkast og fjárframlög til almannatryggingakerfisins (Forseti hringir.) verða rýmri.