138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

réttindi fatlaðra til ferðaþjónustu.

[12:21]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra um fimm úrskurði ráðuneytisins og þrjá úrskurði samgönguráðuneytisins sem fallið hafa gegn Grímsnes- og Grafningshreppi. Allir þessir úrskurðir staðfesta rétt fatlaðra íbúa sveitarfélagsins til ferðaþjónustu. Því miður hefur sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshreppur ekki sinnt lagaskyldu sinni þrátt fyrir átta stjórnsýsluúrskurði. Getur ráðherra upplýst með hvaða hætti félagsmálaráðuneytið hefur fylgt eftir úrskurðum sínum og úrskurðum samgönguráðuneytisins?

Ég geri mér grein fyrir því að sveitarstjórnarmál heyra undir samgönguráðuneytið en ég beini fyrirspurn minni til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sem á að standa vörð um réttindi fatlaðra.