138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

einkaframkvæmdir í vegagerð og veggjöld.

[12:29]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr út í samgöngumiðstöðina og hvaða rekstrarfyrirkomulag verði þar. Í öllum rekstrarlíkönum sem gerð hafa verið varðandi samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll er gert ráð fyrir að tekin yrðu lán hjá lífeyrissjóðunum til 25–30, 35 ára og endurgreiðslan á því yrði í formi leigu til notenda, flugrekenda, veitingasala og annarra. Þar hefur líka verið hugsað að svokallað innritunargjald gangi þar upp í og hefur verið talað um tölur 200–250 kr. á hvern farþega.

Hv. þingmaður spyr líka hvenær vænta megi fyrstu útboða í einkaframkvæmd. Ég segi bara: Vonandi sem allra fyrst. Eins og ég sagði áðan við upptalningu á þessum verkum eru þau misjafnlega langt komin í undirbúningi. Suðurlandsvegur er þar sannarlega lengst kominn til útboðs og er kaflinn frá Reykjavík að Hveragerði tilbúinn að mjög miklu leyti. Það er hins vegar svolítið lengra í kaflann Hveragerði – Selfoss. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að það hefur engin ákvörðun (Forseti hringir.) verið tekin um þetta. Þessi vinna er í gangi og ég hygg að það sé skynsamlegt að stíga þessi næstu skref í samvinnu allra stjórnmálaflokka á Alþingi, að farið sé í gegnum kosti og ekki síður galla af (Forseti hringir.) einkaframkvæmdum og notendagjöldum eða veggjöldum.