138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

svör við fyrirspurnum og fyrirkomulag umræðna.

[12:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri afskaplega skynsamlegt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að hinkra aðeins með þennan þingfund þangað til niðurstaða er komin í þetta mál. Ekki þarf að orðlengja það hver staðan er, hér var gert samkomulag og miðað við þær upplýsingar sem hér hafa komið fram ætla ríkisstjórnarflokkarnir ekki að standa við samkomulagið. Það var skynsamlegt af forseta þingsins að kalla til formenn þingflokka til að fara yfir það mál og það segir sig sjálft að umræðan verður mjög ómarkviss og kannski ekki í samhengi við raunveruleikann ef við höldum hér áfram. Ég held að það væri afskaplega skynsamlegt og ráðlegt að bíða eftir niðurstöðu frá þingflokksformannafundi áður en við höldum áfram.