138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu þar sem hún kom inn á nýja vinkla í þessu máli og þeir eru ótal margir. Mig langar til að spyrja hana að því, hún hefur reynslu af því að vinna í ráðuneyti, mig langar til að vita hversu hátt dulkóðunarstig er þar á tölvupósti. Nú er hægt að dulkóða með einföldum hætti. Stundum er ekkert dulkóðað eins og í einkapósti, svo eru menn með mjög mismunandi hátt dulkóðunarstig eins og t.d. fjármálaupplýsingar til banka o.s.frv. og svo eru náttúrlega „top secret“-mál milli ráðuneyta og milli landa. Hversu hátt dulkóðunarstig er á tölvupósti í ráðuneytinu, er hv. þingmanni kunnugt um það? Síðan langar mig til að vita hvort þessi einkapóstur sem við erum að fjalla um hafi yfirleitt verið dulkóðaður og hvort breska leyniþjónustan, sem skannar meginhluta af öllum pósti að menn telja, hafi ekki bara vitað þetta daginn eftir, um þessi „top secret“ og ægilegu leyndarmál sem íslenskir þingmenn verða að geyma í hugskoti sínu án þess að minnast á það.