138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir skildi við og bæta því við að allt frá því að þetta mál kom fyrst til umræðu á Alþingi hefur töluvert mikið skort upp á upplýsingagjöf og hreinskilni varðandi alþjóðleg tengsl og alþjóðleg samskipti í þessu sambandi, bæði hvað varðar samskiptagerðina sjálfa og meintar þvingunaraðgerðir erlendra aðila, hvort sem um er að ræða Evrópusambandið eða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það hefur verið látið skína í margt, ýmislegt hefur verið gefið í skyn og mörgu haldið fram en fátt komið á yfirborðið sem hönd á festir. Þær upplýsingar sem nú hefur verið vitnað til um tölvupóstsamskipti þáverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins fylla pínulítið upp í þá mynd en enn þá eru eyðurnar töluvert margar.

Ótalmargt í þessu sambandi vekur mann til umhugsunar. Eitt er að ef það gerðist í þessum tilvikum að einkatölvupóstar voru notaðir með þessum afleiðingum — ég ætla ekki að velta fyrir mér hvers vegna það var gert — hlýtur maður að velta fyrir sér hvort vera kunni að einkatölvupóstar hafi verið notaðir til samskipta í fleiri tilvikum en þegar hefur komið fram. Ástæðan fyrir því að ég velti þessu fyrir mér eru einmitt ýmsar eyður í sambandi við upplýsingagjöf um hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Þegar maður fer í gegnum þau gögn sem hafa verið birt, bæði opinberlega og eins þau gögn sem hafa legið í möppum hjá fjárlaganefnd, fær maður ekki fulla heildarmynd af því hvernig atburðarásin er. Það eru eyður í þessu og auðvitað hlýtur maður að verða svolítið tortrygginn þegar svona upplýsingar koma fram og velta því fyrir sér hvort vera kunni að fleira sé ósagt í þessu máli sem ekki hefur komið fram.

Hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir vísaði áðan til ummæla hæstv. utanríkisráðherra frá því í maí um að samningarnir um Icesave við Breta og Hollendinga væru tvíhliða mál og íslensk stjórnvöld vissu ekki um neinar tengingar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þetta beinir sjónum að því að það sem frá hæstv. ráðherrum hefur komið í þessum málum hefur stangast á. Við minnumst þess að 13. júlí sl. beindi hv. þm. Illugi Gunnarsson fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og hún svaraði því skýrt að það væri ekki tenging á milli endurskoðunar efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lykta Icesave-málsins. (Gripið fram í.) Svar hæstv. forsætisráðherra 13. júlí var mjög skýrt. Þingmaðurinn leyfði sér, þegar hann fylgdi spurningu sinni eftir, að vefengja orð forsætisráðherra en þá kom hún upp í síðara andsvari og undirstrikaði fyrri orð sín, að ekki væri um neinar þvinganir eða skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna afgreiðslu Icesave-málsins að ræða. Auðvitað vissu hv. þingmenn á þeim tíma ekki hverju þeir áttu að trúa í þessu sambandi. Ummæli hæstv. forsætisráðherra voru skýr en á sama tíma gengu yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra og raunar fleiri — ég minnist þess að hafa heyrt viðtöl við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra eða þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra um það mál — í aðra átt en ummæli forsætisráðherra.

Síðan kom upp umræða um tengingu við lánveitingu Norðurlandanna og sá þingmaður sem hér stendur spurði hæstv. forsætisráðherra þeirrar spurningar 13. ágúst hvort það væri tenging á milli Icesave-niðurstöðunnar annars vegar og lánveitinga Norðurlandanna hins vegar. Hæstv. forsætisráðherra kom aftur í ræðustól og svaraði með mjög skýrum hætti að það væri engin tenging þar á milli. Hæstv. forsætisráðherra sagði þetta þegar þingmenn spurðu þessarar spurningar. Ég ítreka að á sama tíma var hæstv. fjármálaráðherra á fullu að ýja að því að um einhverjar slíkar tengingar væri að ræða. Það væri forvitnilegt ef hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir eða einhver annar tæki saman í tímaröð hvaða yfirlýsingar íslenskir ráðherrar hafa gefið á einstökum tímapunktum í þessu ferli því þær hafa ekki verið til þess fallnar að auðvelda þinginu að átta sig á raunverulegri stöðu mála svo ekki sé meira sagt. Í einhverjum tilvikum hefur verið talað um að sum svör hæstv. ráðherra hafi beinlínis verið til þess fallin að afvegaleiða þingið frekar en að leiða hið rétta í ljós.

Þetta er sérstakt mál og það er ekki eins og þessi umræða skipti ekki máli í þessu sambandi. Hún skiptir máli vegna þess að helstu rökin af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrir því að það verði að samþykkja þetta mál og gera það fljótt hafa verið þau að yfir okkur vofi þvingunaraðgerðir eða hörmulegar afleiðingar, það er talað um ísöld og frostavetur og ég veit ekki hvað ef þetta mál verður ekki samþykkt. Þrýstingur frá alþjóðasamfélaginu hefur verið helsta tromp ríkisstjórnarinnar þegar hún reynir að koma þessu máli í gegnum þingið og þá er auðvitað lágmark að þingið hafi eins glögga mynd af því og hægt er hver þessi þrýstingur er, hverjar kúgunaraðgerðirnar eru, hverjir eru að hóta og hverju þeir eru að hóta. Það er athyglisvert sem hefur gerst á allra síðustu dögum eða vikum að þeir aðilar sem hafa verið notaðir sem grýlur á íslenska þingmenn og almenning í þessu sambandi, þ.e. ríkisstjórnir Norðurlandanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sverja af sér hver í kapp við annan á opinberum vettvangi að um nokkrar tengingar sé að ræða milli Icesave-málsins á þinginu og þeirrar lánafyrirgreiðslu sem þessir aðilar hafa lofað okkur. Ég spyr enn: Hverju eigum við að trúa þegar upplýsingar og yfirlýsingar stangast svona herfilega á? Getum við tekið upplýsta ákvörðun á meðan þessir hlutir eru enn þá óljósir? Getum við tekið upplýstar ákvarðanir meðan við höfum á annan kantinn skýrar yfirlýsingar á opinberum vettvangi, frá t.d. talsmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og hins vegar óljós ummæli og eiginlega hálfkveðnar vísur um að það sé ekki satt sem talsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segja?

Sama er með Norðurlöndin. Það hefur verið sagt trekk í trekk að engin lánafyrirgreiðsla fáist frá Norðurlöndunum nema Icesave-málið sé klárað. Nú er reyndar búið eftir því sem manni skilst að opna á lánalínurnar frá Norðurlöndunum og talsmenn norrænu ríkisstjórnanna sverja af sér að þær hafi verið í einhverjum sérstökum handrukkunaraðgerðum fyrir Breta og Hollendinga í þessu máli. Bæði Svíar og Norðmenn sverja það af sér. Hverju eigum við þingmenn að trúa? Ég minni á enn og aftur að þessi utanaðkomandi þrýstingur frá alþjóðasamtökum og ríkisstjórnum erlendra landa sem ekki eiga aðild að málinu, nota bene — það er auðvitað rétt sem kom fram í svari hæstv. utanríkisráðherra frá 8. maí að þetta eru tvíhliða samningar milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar en þessir þriðju aðilar, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, ríkisstjórnir Norðurlandanna og ég leyfi mér að nefna í þessu samhengi líka Evrópusambandið — það er gefið í skyn en aldrei sagt beint þannig að tönn á festi að yfir okkur blasi alger frostavetur og myrkur, alger útilokun frá samfélagi við þessar stofnanir og þjóðir ef við samþykkjum ekki Icesave-samkomulagið. Á móti höfum við staðfestar opinberar yfirlýsingar frá hendi þeirra sem segjast hóta okkur. Nú kann að vera að ríkisstjórnin hafi rétt fyrir sér að um slíkar hótanir sé að ræða en það er þá lágmark að þingið hafi þær í höndunum og geti tekið afstöðu til þeirra þegar menn taka afstöðu til þessa máls.