138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir hvert orð sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði rétt áðan í þessu andsvari. Það eru svo margir lausir endar enn þá og ekki grundvöllur til þess einu sinni að hugsa um að samþykkja þetta frumvarp. Langgæfulegast væri fyrir ríkisstjórnina að fresta málinu fram í janúar, febrúar, mars, jafnvel fram á vor og einbeita sér að því sem skiptir máli, því að hjálpa fjölskyldum þessa lands og koma með fjárlagafrumvarp sem ekki er uppkast á pappír. Tíminn líður hratt frá okkur. Þetta mál getur alveg beðið eins og margoft hefur komið fram, því eftir því sem ég hef á tilfinningunni í dag eru þessi mál ekki tengd. En svo er maður á annarri skoðun á morgun út af því að ríkisstjórnin hefur hag af því að halda þingmönnum og þjóðinni allri í spennitreyju, í málefnalegri óvissu. Þetta er alveg með ólíkindum en slík vinnubrögð hafa löngum verið notuð hjá veikum ríkisstjórnum víða um heim.

Mig langar einnig til að hnykkja á því að þessi póstsamskipti fara fram 13. og 14. apríl á þessu ári, fyrir kosningar. Þarna var verið að leyna kjósendum þessara flokka upplýsingum um það hvernig málin væru stödd. Þetta er náttúrlega hreint með ólíkindum og enn á ný kemur upp að Vinstri grænir hafa svikið kjósendur sína, eins og í ESB-málinu.

Að lokum langar mig til að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson að því hvaða skoðun hann hefur á því að efnahags- og viðskiptaráðherra, ráðherra sem hefur ekki einu sinni atkvæðisrétt á Alþingi úr því að hann kemur utan þings inn í ríkisstjórnina, fullyrði í erlendum fjölmiðlum að Íslendingar ætli að samþykkja Icesave. (Forseti hringir.)