138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bíð spenntur eftir öllum nýjum upplýsingum og gögnum sem hæstv. utanríkisráðherra getur komið fram með. Bara til þess að hafa það alveg á hreinu þá getur meira en verið að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki haft upplýsingar um tengingar af þessu tagi og talið í einlægni að um væri að ræða fullkomlega tvíhliða mál þegar hann tjáði sig við fjölmiðla 8. maí. Það getur meira en vel verið. Ég ætla ekki að rengja það að hæstv. utanríkisráðherra hafi talað samkvæmt bestu vitund á þeim tíma.

Ég ætla í sjálfu sér heldur ekki að rengja það að hæstv. forsætisráðherra hafi talað af bestu vitund þann 11. júlí þegar hún sagði í þinginu skýrt og skorinort að engin tenging væri á milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Icesave-málsins. Hún sagði þetta í svari við fyrirspurn sem hv. þm. Illugi Gunnarsson bar fram til hennar. Ég er ekki í vafa um að hæstv. forsætisráðherra tjáði sig eftir því sem hún best vissi þann 13. ágúst þegar hún sagði að engin tenging væri á milli norrænu lánanna og afgreiðslu Icesave-málsins.

Vandi okkar sem stöndum frammi fyrir misvísandi upplýsingum og yfirlýsingum í þessum efnum er auðvitað sá að við erum engu nær um hver sannleikurinn í málinu er. Ég hef ekki notað þau orð að ríkisstjórn Íslands hafi logið í málinu, ég er ekki að nota það orðalag. En ég hef hins vegar alveg treyst mér til að fullyrða að á ýmsum stigum í málinu hefur hún ekki tjáð sig eftir bestu fáanlegu upplýsingum á hverjum tíma og ekki tjáð sig þannig að það gæfi okkur fyllstu myndina og ég leyfi mér að halda því fram að sumar yfirlýsingar sem gefnar hafa verið í ferli þessa máls séu beinlínis misvísandi.