138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er vel hugsanlegt að einhverjar yfirlýsingar sem fram hafa komið frá hæstv. ráðherrum séu misvísandi. Það getur stafað af því að atburðarásin á milli yfirlýsinga hafi valdið því að menn hafi komist á aðra skoðun. Það getur vel verið.

Í annan stað er það þannig að ráðherrar eru mannlegir eins og aðrir. Stundum tjá þeir sig ekki nægilega skýrt, stundum hafa þeir ekki kynnt sér nýjustu upplýsingarnar til þess að geta svarað eins og hefði kannski verið heppilegra. Í mínu tilviki er það einfaldlega þannig að ég hef aldrei sagt þinginu ósatt og reyni að upplýsa þingið um það sem það spyr mig um. Hv. þingmaður spurði í ræðu sinni áðan, sem að mörgu leyti var ágæt málþófsræða: Getur þingið tekið upplýsta ákvörðun? Ég er ekki viss um að þingið geti það nema það kynni sér gögnin sem liggja fyrir. Ég dró þá ályktun af því sem hv. þingmaður sagði að hann hefði ekki kynnt sér gögnin, sem hafa legið fyrir mjög lengi.

Í nóvember í fyrra var skotið inn í samninginn ákvæði þar sem beinlínis var sagt hvernig ætti að ljúka deilunni við Hollendinga og Breta og hvernig ætti að forfjármagna það með lánum. Eftir rosknu minni og hv. þingmaður fyrirgefur mér ef mig misminnir, þá var bókstaflega sagt að það ætti að gera á allra næstu dögum, innan skamms, svo fljótt sem verða mætti, þannig að ljóst liggur fyrir að í samningnum var bein tenging við þetta.

Í öðru lagi liggur fyrir að í sumum þeirra þingtexta sem norrænu þingin þurftu að samþykkja og ríkisstjórnir viðkomandi landa lögðu fyrir var bein tenging, hvergi þó eins grellin og í tilviki Norðmanna. Þetta eru textar sem liggja fyrir og ég hef t.d. farið yfir gagnvart hv. utanríkismálanefnd þannig að mér finnst að hv. þingmaður eigi dálítið erfitt með að taka þátt í upplýstri umræðu ef hann kynnir sér ekki upplýsingarnar sem fyrir hendi eru. (Gripið fram í: Hvaða gögn eru þetta?) Þingskjölin t.d. í Noregi.