138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að mínu mati að allt það sem hér hefur verið sagt af hálfu stjórnarflokkanna, um gegnsæi, um samvinnu, samstarf og lýðræði, opna stjórnsýslu — ég veit ekki hvort það orð sem ég nota núna flokkast undir vítur, en þetta er kjaftæði, það er ekkert öðruvísi. Þetta er kjaftæði, það er búið að halda þessu að þinginu og þjóðinni og það er ekkert að marka þetta, frú forseti. Því miður mun engin breyting verða á, tel ég. Þeir flokkar sem eru við stjórnvölinn hafa sýnt það og sannað með þessum tölvupósti sem lekið hefur út í samfélagið að þeir þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart þjóðinni og gagnvart þinginu. Það verður best gert með því að aflétta leyndinni af þeim gögnum sem eru í þessari leynimöppu.

Ég ætla að bæta því við, frú forseti, að ég tel fulla ástæðu til þess að það verði rannsakað og skoðað hvort einhvers staðar séu önnur gögn sem ekki hafa komið fyrir augu þingsins, sem ekki eru í þessari svokölluðu leynimöppu. Hvernig í ósköpunum getur þjóðin, sem fylgist vel með þessu máli, treyst því að allt sé komið fram? Hvernig getur hún treyst því þegar það er valið að setja ákveðna hluti undir orðið „trúnað“. Að mínu viti er verið að misnota það orð með því að leika það með þessum hætti. Hér eru gögn, eins og þeir tölvupóstar sem vitnað hefur verið í, sem hefðu skipt miklu máli fyrir kosningar og skipta máli eftir kosningar.