138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[15:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fyrir framsöguna. Það er eitt og annað sem maður veltir fyrir sér og það var auðvitað farið vel yfir þetta mál allt saman í nefnd. Ég tek undir þessa meginhugsun eins og ég skildi hana, um leið og verið er að auka aðhald, og það er bráðnauðsynlegt varðandi atvinnuleysistryggingar, eru menn að reyna að fókusera á þann stuðning sem sérstaklega þarf að veita ungu fólki í atvinnuleit þannig að það festist ekki í viðjum atvinnuleysis.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvað líði frumvarpi um framhaldsfræðslu. Þó að það falli ekki undir hans málaflokk er það engu að síður mikilvægt og snýst um það hvernig hægt er að koma ungu fólki sem ekki er með mjög mikla menntun aftur inn í skólakerfið. Hægt er að samþætta það inn í þær breytingar sem gera verður sameiginlega milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Þetta verður að vinna saman, hvað líður þessu máli.

Eins og ég skil þetta er hér verið að auka útgjöld ríkissjóðs með því að fjölga verulega starfsmönnum ríkisins, þ.e. tíu starfsmenn koma til viðbótar til Vinnumálastofnunar og tveir til Fæðingarorlofs- og Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna aukins eftirlits. Við vitum að það þarf að auka eftirlit til að fylgja þessu eftir. Það þarf að auka eftirlit og aðhald þessara stofnana. En ég spyr: Er ekki hægt, og ég tala líka af reynslu innan úr stjórnkerfinu, að hagræða innan stofnunarinnar þannig að forgangsraðað verði í nákvæmlega þessi atriði, þ.e. aukið eftirlit og aðhald? Eina úrræðið hjá ríkisstofnunum til að bæta við sig verkefnum er að bæta við sig starfsmönnum. Mér finnst það grunnhugsun að Vinnumálastofnun geti farið í slíkar tilfæringar án þess að fjölga starfsfólki.

Ég vil í þriðja lagi spyrja: Hvað með samtalið við sveitarfélögin? Ég sé að gert er ráð fyrir því að hugsanlega verði gerður samningur við sveitarfélögin ef svo ber undir. Hvað með sveitarfélögin?