138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[15:31]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta og margt gott má finna í frumvarpinu. Mig langar hins vegar að spyrja hann tveggja spurninga. Í ljósi útgjaldaaukningar upp á 90 milljónir, og ekki er tekið fram í frumvarpinu að verið að ráða í verkefni tímabundið, langar mig að spyrja hvort komið hafi til tals á milli ráðherra og Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar að færa starfsemi Vinnumálastofnunar út til þeirra þar sem maður telur að þeir séu í nánara samstarfi við þá sem eru atvinnulausir og geti hugsanlega virkað betur en formleg stofnun eins og Vinnumálastofnun gerir. Ég vísa þá til þess sem stendur hér um sveitarfélögin, í 28. gr. í II. kafla, að þau megi binda fjárhagsaðstoð viðkomandi sveitarfélags skilyrðum vegna atvinnuþátttöku, vegna virkni o.s.frv., hvort það hafi verið skoðað með einhverjum hætti. Með því gætum við dregið úr útgjöldum ríkisins og fært stofnunina nær þeim sem til þekkja því að álagið á Vinnumálastofnun er gífurlegt eins og verið hefur. Ljóst er að ekki hefur tekist að ræða við alla þá sem eru atvinnulausir þannig að virkni í samskiptum á milli er ekki mikil.

Mig langar þar að auki að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi skoðað það sem ég spurði hann forðum um, þ.e. lagalegt vinnuréttarsamband á milli þeirra sem fá greitt að hluta atvinnuleysistryggingabætur á móti því sem þeir eru í vinnu, hvort rof verði á því vinnuréttarsambandi því að ekki er heldur tekið á slíku eða það rætt í frumvarpinu.

Ég er með eina spurningu enn, hæstv. forseti, en ég kem henni að í seinna andsvari.