138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[15:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér afskaplega mikilvægt mál að mínu mati og líka dálítið margbrotið. Þarna er fullt af smáatriðum og álitaefnum sem þarf auðvitað að fara vandlega yfir í félags- og tryggingamálanefnd og ég treysti því að svo verði gert. Ég ætla því að fjalla um þetta í stórum dráttum og svona almennt að mestu leyti.

Ég hjó eftir því í yfirferð ráðherrans og framsögu að hér eru sett dálítið metnaðarfull markmið. Annars vegar er áætlað að spara 750 milljónir sem hluta af sparnaðaraðgerðum ríkisstjórnarinnar og svo á að spara að auki 750 milljónir með þessum aðgerðum. Ég tek undir markmiðið að láta þá fjármuni renna til þess að efla vinnumarkaðsúrræði ungs fólks. Ég skildi ráðherrann þannig að það væri hugsunin með frumvarpinu og ég tek undir það, þá grunnáherslu, vegna þess að ég held að þetta sé langstærsta viðfangsefnið á vinnumarkaði í dag í ástandi sem við höfum ekki séð áður á Íslandi eftir að atvinnuleysistryggingakerfið kom á, að taka á vanda ungs atvinnulauss fólks, 2.500 manns sem eru atvinnulausir. Þetta er hópur sem reynsla nágrannaþjóða sýnir að er í mestri hættu að lenda varanlega sem bótaþegar og þá erum við komin með ansi yfirgripsmikið vandamál og sorglegt í íslensku samfélagi. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið og því fagna ég auðvitað þessu grundvallarmarkmiði.

Hér er hins vegar aðeins sýnt á aðra hlið peningsins og jafnvel bara hluta af annarri hlið peningsins. Um er að ræða frumvarp þar sem boðaðar eru hertari aðhaldsaðgerðir í atvinnuleysistryggingakerfinu og náttúrlega ekki alveg ljóst hve miklum fjárhæðum það skilar og því er þetta sýnd veiði en ekki gefin.

Ég hjó eftir því í máli ráðherrans að hann sagði að komið yrði til móts við atvinnuleysi ungs fólks með þeirri hagræðingu eða sparnaði sem í þessum aðgerðum fælist, án þess að það væri beinlínis útlistað nánar hvernig væri áætlað að ná fram þeim sparnaði í einstökum liðum, það er ekki alveg augljóst í frumvarpinu, og hins vegar með bættu atvinnuástandi. Þar kemur annað og jafnvel óljósara hugtak sem þarfnast nánari skýringar. Við höfum auglýst talsvert eftir því hér, stjórnarandstaðan á þingi, hverjar atvinnuskapandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru helstar. Og fyrst það er ein grunnforsenda þess að mæta bágu atvinnuástandi ungs fólks að efla atvinnusköpun í landinu, er auðvitað æskilegt að félags- og tryggingamálaráðherra segði sínar hugmyndir í því líka.

Í öllu falli má taka undir áherslurnar en vonandi verður í störfum félags- og tryggingamálanefndar farið nánar í saumana á því hvernig á að ná fram þessum fjármunum með slíkum aðgerðum. Það er að mörgu að huga, vegna þess að hér er verið að boða aukna eftirfylgni, aukið eftirlit, herða á aðgerðir gegn bótasvikum og ég fagna því í grundvallaratriðum. Ég held að það sé alveg rétt að við þurfum að aðlaga atvinnuleysistryggingakerfið þeirri staðreynd að við höfum aldrei horft upp á svo mikið atvinnuleysi og þar af leiðandi eykst hættan á bótasvikum, en við þurfum líka að efla Vinnumálastofnun til að takast á við þennan nýja raunveruleika og við verðum líka að gæta okkar í þessu. Við megum auðvitað ekki fara svo hart fram að við rjúfum þá sátt sem er um almannatryggingakerfið í landinu. Þeir sem eru á vinnumarkaði hafa sinn rétt, þeir hafa greitt tryggingagjald eða atvinnurekendur þeirra og við megum ekki ganga svo hart fram — og það verður að gæta að því í störfum nefndarinnar og ég treysti því að svo verði gert — að gengið verði á þann rétt. Þeir verða auðvitað að hafa sinn málskotsrétt ef þeir eru vændir um bótasvik, bótaþegar atvinnuleysistryggingakerfisins, og þar fram eftir götunum.

Við verðum líka að gæta þess, þó svo að markmið almannatryggingakerfisins sé að koma fólki aftur út á vinnumarkað, að þetta kerfi búi ekki til sakbitna einstaklinga. Þetta verður, sérstaklega í svona árferði, að vera hluti af því að vera til, að sá möguleiki sé fyrir hendi að maður lendi á atvinnuleysistryggingabótum og það má ekki taka þannig á fólki að því fari að líða eins og að það sé á einhvern hátt sakafólk við það að lenda í því bótakerfi.

Hér þarf auðvitað að gæta ákveðins hófs þó svo að það sé mikilvægt líka að ganga hart fram og af fullri hörku gagnvart sannanlegum svikum í þessu kerfi. Við munum fara yfir þetta í nefndinni.

Ég talaði um að þetta væri bara önnur hliðin á peningnum, þ.e. að hér sé svona verið að leggja upp með það að ná fram 750 milljónum með aðhaldsaðgerðum í atvinnuleysistryggingakerfinu. Og þá er það hin hliðin, í hvað eiga þessar 750 milljónir að fara? Hverjar eru vinnumarkaðsaðgerðir hæstv. félagsmálaráðherra? Það vantaði algjörlega í ræðuna hverjar þær hugmyndir eru.

Við horfum upp á það að kannski 2.500 manns á aldursbilinu 18–25 ára, ég held að ég fari rétt með, séu atvinnulausir. Við vitum öll sem hér sitjum hversu alvarlegur vandi það er. Við höfum þá reynslu frá nágrannaþjóðum sem hafa lent í kreppu að þessi hópur getur orðið týnd kynslóð, getur lent varanlega í bótakerfinu. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að einblína á einhverjar einhlítar lausnir í þessu, við megum ekki bara segja: Hér er að stofni til ungt ómenntað fólk, reynum að koma því í framhaldsskóla, reynum að koma því í nám. Ég held að við þurfum að sækja fram gagnvart þessu ógnarstóra og mikilvæga verkefni með fjölbreytt úrræði að leiðarljósi. Ég held satt að segja að það sé ekkert endilega svo líklegt til árangurs að ætla að segja þetta við þennan hóp sem er nýkominn úr framhaldsskóla, sem er nýhættur í framhaldsskóla, sem sagt féll úr framhaldsskóla að stórum hluta til. Ég er ekki sérstaklega viss um að það sé affarasælt til árangurs í þessu árferði að ætla að reyna að koma þessum hóp inn í framhaldsskólann aftur. Kannski tekst það að hluta til en við verðum að hafa önnur úrræði líka.

Ég vek athygli á úrræðum eins og þeim sem UMFÍ hefur talað fyrir sem er svona óformlegt nám, þeir hafa vakið máls á hugmyndum um lýðháskóla á Íslandi. Ég held að við verðum að nota peninginn sem skapast vonandi við þessar aðgerðir til að efla öll svoleiðis úrræði. Við verðum að skapa fjölbreytt störf á vinnumarkaði og við notum kannski ekki þessar 750 milljónir til þess, en það er auðvitað eitthvað sem við verðum að gera, í verslun og þjónustu. Ein hugmynd, sem er mikið rædd á verksviði félags- og tryggingamálaráðuneytisins líka, er að efla notendastýrða persónulega þjónustu við fatlaða. Það eru störf, fjölmörg störf í okkar nágrannaríkjum sem henta þessum hópi mjög vel.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé lykilatriði til að koma í veg fyrir að þessi hópur fari varanlega á bætur að við höldum þessum ungmennum virkum og þá þurfum við að efla t.d. aðkomu þeirra inn í sjálfboðaliðastörf. Rannsóknir sýna að ungt fólk sem fer í sjálfboðaliðastörf fær í mjög mörgum tilvikum vinnu mjög fljótlega eftir að það er komið í slíka virkni. Við eigum að efla virkni hjá þessu fólki innan listgeirans. Það hefur sýnt sig og það vitum við öll að þeir sem hafa farið úr framhaldsskólakerfinu hafa oft ýmsa hæfileika á öðrum sviðum sem við eigum auðvitað núna að reyna að virkja með fjölbreyttum úrræðum. Við þurfum að fá þessa umræðu á flug. Ef við náum fram 750 milljónum með þessum aðgerðum, þó að það sé óútlistað, verðum við að vita hvert við ætlum að fara. Sú umræða þarf að fara fram og ég vona að hún fari líka fram í nefndinni, en ég vildi líka gjarnan vilja heyra hvernig hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur hugsað sér að takast á við þetta.

Svo þurfum við auðvitað að fara að heyra frá ríkisstjórninni hverjar hinar almennu atvinnuskapandi aðgerðir eru og hvaða almennu efnahagsaðgerðir á að ráðast í til að auka virkni efnahagslífsins til að koma því aftur á stað og þannig skapast auðvitað störf fyrir þetta fólk.

Svo vil ég líka vekja athygli á því, af því að ég tala um að þetta sé mjög aðkallandi vandi og mér heyrist allir fallast á það, 2.500 manns atvinnulausir á meðal ungs fólks, að þetta er ekki bara vandi sem er að skapast akkúrat núna. Brottfall úr framhaldsskóla var mjög mikið í góðærinu og við erum auðvitað að takast á við þann vanda núna með því að hér er ungt ómenntað fólk, sem féll úr framhaldsskóla í góðærinu, atvinnulaust. Við erum því að takast líka á við vanda sem hefur verið nokkuð langvarandi í íslensku samfélagi og í ljósi þess legg ég enn og aftur áherslu á það að við göngum fram til atlögu við þennan vanda með fjölbreytt úrræði, að við einblínum ekki bara á það að koma þessu fólki í framhaldsskóla. Gott og vel.

Varðandi svona einstök efnisatriði frumvarpsins, held ég að það sé rétt skref að binda hlutabætur við 20% skerðingu en ekki 10%. Það er líka ágætt að það sé tímabundið vegna þess að það getur orðið sterk tilhneiging til þess þegar komið er þannig fyrirkomulag á vinnustöðum að einhver sé að hluta hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og að hluta á launum hjá vinnuveitandanum að það verði varanlegt og það viljum við ekki. Ég fagna því að réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta sé framlengdur með þeim hætti sem tilkynnt er í frumvarpinu.

Ég vil skoða mjög vel hvernig við umgöngumst námsmenn í þessu kerfi. Ég tek undir áhyggjur hæstv. ráðherra sem hann lét í ljósi áðan gagnvart vissum hópi námsmanna. Ég held við verðum að passa samspil bótakerfanna hvað varðar námsmenn. Þeir námsmenn sem sækja sér ekki fullt nám mega ekki lenda milli kerfa, við verðum að hafa einhverjar leiðir til að koma til móts við þá. Það er hluti af því að auka virkni þessa hóps.

Ég held að ég láti þetta nægja að sinni um þetta mál en ég trúi því og treysti að við munum fara vandlega yfir það í félags- og tryggingamálanefnd.