138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[15:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og ýmsu fleiru. Ég ætla að byrja á því að segja að margt er þarna gott, t.d. sú viðleitni að auka virkni atvinnulausra og það hef ég margoft bent á og líka gagnvart öryrkjum að það vantar mjög mikið að auka virkni fólks og láta það ekki missa tengslin við vinnumarkaðinn.

Langtímaatvinnuleysi er afskaplega hættulegt fyrirbæri og það ættu þeir sem eru langtíma atvinnulausir að gera sér grein fyrir en líka stjórnvöld, vegna þess að það hefur sýnt sig að fólk sem er frá vinnumarkaði lengur en sex mánuði af hvaða ástæðum sem er, hvort sem það er út af atvinnuleysi, slysum, sjúkdómum eða einhverju öðru, á yfirleitt ekki afturkvæmt inn á vinnumarkaðinn. Það eru 80% líkur á því að það fari aldrei aftur að vinna. Þetta er mjög hastarleg niðurstaða og mjög alvarleg og þarf virkilega að skoða það vel.

Hlutfallslegar atvinnuleysisbætur, það á að framlengja þær. Ég er mjög ánægður með það, ég var virkilega ánægður með það fyrirkomulag þegar það var tekið upp. Mér skilst að það sé eiginlega í fyrsta skipti í heiminum að þetta er gert, en því miður er líka talað um misnotkun. Ég ætla að koma inn á það á eftir.

Mjög alvarlegt er að sjá mikla fjölgun ungs fólks á atvinnuleysisbótum. Ég hygg að kerfið lokki fólk inn, að það sé ekki um raunverulegt atvinnuleysi um að ræða heldur sjái menn þarna betri kost, af því að ungt fólk er oft ekki með há laun til að byrja með og það sjái þetta bara sem ágætisvalkost að vera á atvinnuleysisbótum og jafnvel vinna svo svart, og þá kem ég inn á þessa misnotkun sem ég var að tala um. En þetta getur haft mjög alvarleg áhrif á þetta unga fólk vegna þess sem ég gat um áðan um alvarleg áhrif langtímaatvinnuleysis.

Ráðherra nefndi ekki hvaða áhrif atvinnuleysi hefur á öryrkja sem núna fá alls ekki vinnu en fengu þó vinnu þegar hér var allt blómstrandi og mikil þörf á fólki í vinnu. Hann nefndi ekki hvaða áhrif það hefur á fólk sem er eldra en 55 ára og sætir mjög miklum fordómum á vinnumarkaði. Það fólk á mjög erfitt með að fá vinnu. Mér finnst ekki síður þurfa að horfa á þann endann en yngra fólkið vegna þess að 55 ára maður er jú í fullu fjöri. Og það er jafnvel allt niður í fimmtugt sem fólk á erfitt með að fá vinnu. Ég held menn þurfi að skoða margt í þessu.

En allt er þetta spurningin um það að atvinnuleysi má bara ekki vera til staðar. Það er bara mjög einfalt, við eigum ekki að viðurkenna atvinnuleysi hér á landi og við eigum að gera allt til að vinna gegn því. Þess vegna finnst mér undarlegt að á sama tíma — og þá ætla ég að koma inn á neikvæðu hliðarnar — og menn tala um atvinnuleysi er verið að hækka tryggingagjald, sem er ekkert annað en skattur á atvinnu, og verið er að hækka skatta á hagnað fyrirtækja, hækka skatta á fjármagnstekjur og annað slíkt á sama tíma og biðlað er til áhættufjármagns að koma nú inn í atvinnulífið og auka atvinnu. Þetta fer ekki saman. Menn geta ekki lamið áhættuféð sem búið að tapa óhemjumikið á. Og þegar menn tala um að fjármagnseigendur hafi allt sitt á þurru, þá hafa sennilega 70 þúsund manns tapað að meðaltali 5 milljónum hver, ég giska á það, ég ætla reyndar að fá það einhvern tímann útreiknað. En ég hugsa að mjög stór hluti þjóðarinnar hafi tapað óhemjumiklu á áhættufé og nú ætla menn að fara að höggva í þann knérunn að skattleggja það og láta sig dreyma um að það komi eitthvert fjármagn, áhættufé inn í atvinnulífið til að auka atvinnu. Þetta rekst allt hvað á annars horn.

Undirstrika þarf að fólk sem er atvinnulaust er það yfirleitt að ósekju. Það lendir í því að fyrirtæki sem það starfar hjá leggur upp laupana vegna hrunsins, líka vegna skattlagningar núna, og starfsmenn sem lenda í þessu eiga enga sök á því, þetta er bara óhamingja eins og að lenda í bílslysi.

Svo ætla ég að koma inn á misnotkunina. Það er svo dapurlegt að þegar hönnuð eru góð kerfi, eins og atvinnuleysisbætur, eins og örorkubætur eða eins og hlutaatvinnuleysi, skal það alltaf vera misnotað, frú forseti. Það er til fólk sem virkilega leyfir sér að misnota svona kerfi eins og kom í ljós þegar margir menn voru gripnir við það að starfa í fullri vinnu og vera á atvinnuleysisbótum. Og það er kannski vegna þess hvernig tekið er á slíku í lögunum, hvernig refsingum er háttað.

Ég hef margoft bent á í gegnum tíðina, í mörg, mörg ár, í áratugi, samanburðinn á viðurlögum í skattkerfinu og í bótakerfinu. Þetta er hvítt og svart, frú forseti. Annars vegar er ríkið að taka peninga af einstaklingum og fyrirtækjum sem þeir eiga og ríkið er að grípa með sinni krumlu. Hins vegar eru einstaklingar sem seilast inn í sameiginlegan sjóð landsmanna og stela úr honum. Þegar ríkið seilist í vasa skattgreiðenda eru viðurlögin þannig, og ég ætla að lesa hérna t.d. úr lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Álag á vanskilafé er einn hundraðshluti af upphæð vanskilafjár fyrir hvern dag eftir eindaga, allt að 10%, þ.e. hver dagur gefur 1% álag. Og síðan koma dráttarvextir til viðbótar. Svo ætla ég að lesa hvað gerist ef þetta verður mjög alvarlegt, það er úr 30. gr., að skýri gjaldskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem hann stal undan.

Og svo er makalaust ákvæði sem ætti að vera bannað börnum af því að það er svo svakalegt. Ef maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, t.d. misnotar skattkort, skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Ef hann misnotar skattkort skal hann sæta fangelsi allt að tveimur árum. Hann er sem sagt að koma í veg fyrir það að ríkið taki af honum peninga sem hann á en hann á að borga samkvæmt lögum.

Ef hann er hins vegar í fullri vinnu, frú forseti, og þiggur atvinnuleysisbætur, segir í frumvarpinu, fær hann ekki atvinnuleysisbætur í 12 mánuði í viðbót — hann er í fullri vinnu þannig að hann þarf nú kannski ekki atvinnuleysisbætur í 12 mánuði, þetta er engin refsing, og svo á hann að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þarna er ekki ekki orð um vexti. Þetta er ekki einu sinni með vöxtum, hvað þá eitthvert álag, hvað þá einhverjir dráttarvextir, hvað þá fangelsi. En það skal hann gera ef hann er að borga til ríkisins. Það er náttúrlega ekkert samræmi þarna á milli, frú forseti. Ég legg til að hv. félagsmálanefnd fari að skoða í alvöru hvernig mismunandi refsingum er beitt í skattalögum annars vegar og svo hins vegar í bótalögunum.

Það er ekki svo að þeir sem stela bótum eigi allir bágt, það er alls ekki þannig. Þeir eru í fullri vinnu, sumir, eins og kom í ljós þegar gerð var einhver rassía núna fyrir stuttu, þá kom í ljós að fjöldi manns var í fullri vinnu og þáði atvinnuleysisbætur. Og t.d. námsmenn sem eru á námslánum og þiggja jafnframt atvinnuleysisbætur, eins og kom líka í ljós þegar menn loksins fengust til þess að keyra saman skrárnar, þeir eru að misnota kerfið. Jú, jú, þeir skulu jafnvel endurgreiða þær. Þetta er ekkert sambærilegt og mér finnst bara allt að því skömm að þessu.

Svo er eitt sem ég verð að geta um. Ég heyri ansi mikið um það að hin opinbera atvinnumiðlun sé í skötulíki. Fólk sem vill fara að vinna fær ekki miðlun. Ég legg til að hæstv. ráðherra skoði það alveg sérstaklega að miðlun atvinnuleysiskerfisins, þ.e. hin opinbera ráðningarstofa, sé raunveruleg miðlun þannig að fólk sem vill fá vinnu geti fengið vinnu.