138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[16:08]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir yfirferð hans á málinu áðan og lýsa því yfir að ég tel að grundvallarhugsunin í þeim breytingum á lögunum sem við ræðum hér sé skynsamleg, einkum og sér í lagi í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í þjóðfélaginu. Það markmið að nota þann fjárhagslega ávinning sem hlýst af breytingunum til þess að koma með úrræði til handa þeim sem eru í atvinnuleit og eins til að styrkja Vinnumálastofnun tel ég mjög jákvætt.

Frumvarpið þéttir að sumu leyti kerfið og herðir að sumu leyti reglurnar, án þess þó að skerða að mínu viti það sem við mundum kannski kalla grundvallarréttindi í kerfinu. Ég tek þó undir áhyggjur hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar sem hann bar hér upp vegna námsmanna, atvinnustöðu námsmanna og þeirri stöðu sem þeir geta lent í vegna þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. Það er klárlega eitthvað sem verður skoðað í hv. félags- og tryggingamálanefnd og ég tel að sjái menn á því meiri háttar agnúa að fylgja eftir ákvæðinu eins og lagt er til í frumvarpinu, muni nefndin bregðast við því.

Ég lít líka svo á að einmitt vegna þeirrar stöðu sem við erum í sem samfélag, verðum við sem löggjafarvald að líta svo á, a.m.k. að einhverju leyti, að hluti þeirra breytinga sem við erum að gera hér geti verið tímabundinn, þ.e. að komi það í ljós eftir að erfiðasta tímabilið í rekstri þessa kerfis er hjá, geti komið til þess að auka aftur réttindin að einhverju leyti eða breyta aftur hluta þeirra ákvæða sem hér er átt við.

Varðandi þau ákvæði sem rædd eru sérstaklega í tilteknum greinum, vil ég koma inn á 25. gr. þar sem rætt er um framlengingu á bráðabirgðaákvæði vegna hlutaatvinnuleysis. Ég velti því upp hvort það að framlengja það aðeins til 30. júní á næsta ári sé nægjanlegt, eða jafnvel hvort skoða ætti að loka ekki endamörkunum á því ákvæði með tiltekinni dagsetningu gagnvart kerfinu, heldur að hafa frekar sveigjanleika í kerfinu hvað þetta varðar gagnvart einstaklingum sem notfæra sér þennan rétt tímabundið. Það er að vísu aðeins flóknara í framkvæmd og kann að kosta meiri vinnu af hálfu Vinnumálastofnunar að fylgja því eftir en væri líklega réttlátara gagnvart þeim einstaklingum sem til að mynda koma inn í þetta ákvæði t.d. nálægt miðju næsta ári, ef einhverjir yrðu. Ég beini því til formanns hv. félags- og tryggingamálanefndar að þetta verði skoðað í meðförum nefndarinnar.

Ég velti einnig fyrir mér í 25. gr. að þar er sett inn upphæð í c-lið þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir 2. mgr. skulu laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. samanlagt aldrei nema hærri fjárhæð en 521.318 kr. á mánuði.“

Ég velti því fyrir mér hvort þetta er rétt upphæð eða hvort þetta er sú upphæð sem við eigum að negla þetta niður við og gæti til að mynda skapast svigrúm til að víkka fyrra ákvæðið sem ég nefndi, þ.e. þetta með tímabundna hlutaatvinnuleysið, að með því að lækka þessa upphæð skapaðist jafnvel svigrúm að einhverju leyti til þess. Ég velti þessu upp og ég veit að þetta mun koma til umræðu innan nefndarinnar.

Ég geri athugasemdir við eða hef öllu heldur áhyggjur af 28. gr. sem snýr að framfærsluskyldu sveitarfélaganna. Í mínum huga er sú skylda afar rík og vandséð í raun hvernig sveitarfélög geta vikist undan þeirri ábyrgð þótt með einhvers konar lagaákvæðum væri. Mér finnst að fara þurfi mjög vel yfir þetta. Við skulum hafa í huga að þetta er sennilega með elstu ákvæðum í íslenskri lagasetningu, þ.e. hugtakið framfærsluskylda og að allir eigi rétt á framfærslu. Með vissu móti má jafnvel segja að það ákvæði hafi komið inn strax á 11. öld og er að því leyti til mjög merkilegt, þó að vissulega sé það ákvæði eins og það var á þeim tíma afar rýrt í huga okkar nútímamanna. En engu að síður var strax á þessum tíma slík hugsun til í íslensku samfélagi.

Ég er ekki að segja að það sé ekki hægt að setja inn ákvæði til að mynda er varðar yngstu atvinnuleitendurna og koma þar með til móts við t.d. þá hugsun sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi áðan, þ.e. að yngstu atvinnuleitendurnir eru vafalítið í mestri hættu að festast varanlega inni í vítahring atvinnuleysis. Þess vegna gætu kannski ákvæði eins og koma fram í 28. gr. einna helst átt við um þá einstaklinga, þ.e. þá sem eiga enn eftir þá vegferð að afla sér menntunar, afla sér reynslu o.s.frv., og slík ákvæði gætu því beinlínis hjálpað þeim einstaklingum að koma undir sig fótunum og þar með verið afar mikilvæg.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra hvað þetta varðar. Ég geri ráð fyrir að koma frekari sjónarmiðum að í vinnu nefndarinnar og treysti því að nefndin muni fara ítarlega yfir þau efni sem ég og aðrir hv. þingmenn höfum rakið hér og trúi því að þessar breytingar verði gerðar í þokkalegri sátt eftir því sem maður heyrir hér.