138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[16:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Umfang þess aukna atvinnuleysis sem við stöndum frammi fyrir ætti að vera tímabundið, það á að horfa á það sem tímabundið og það á að vera það ef rétt verður á málum haldið. Það er óumflýjanlegt við þær aðstæður sem eru hér á landi að atvinnuleysi verði vaxandi eins og við sjáum gerast í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þó er atvinnuleysi ekki meira hér en margar þjóðir mega búa við, jafnvel á tímum þegar ekki er efnahagskreppa eins og nú er. Fyrir okkur er atvinnuleysi stórkostlegt þegar það er komið yfir 9% og stefnir jafnvel í að verða hærra, hjá þjóð sem um margra ára skeið var vön því að atvinnuleysi væri innan við 3% og jafnvel 1–2% oft og tíðum, hjá þjóð sem hefur búið við það að hafa einhverja mestu framleiðni á hvern einstakling á vinnumarkaði miðað við þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Þetta er eitthvað sem hlýtur að eiga að vera markmið okkar og því er það svo að þær aðgerðir sem við ræðum hér til að bregðast við auknu atvinnuleysi og aðgerðir til að standa við bakið á þeim og hjálpa þeim sem lenda í atvinnuleysi, eiga auðvitað að taka mið af því að um tímabundið ástand sé að ræða.

Það hefur komið fram að atvinnuleysi hitti sérstaklega illa ungt fólk á aldrinum 16–24 ára og á þeim aldri séu um 2.600 manns atvinnulausir og mjög stór hluti þeirra sem eru atvinnulausir undir 30 ára aldri séu með takmarkaða menntun eða kannski eingöngu grunnskólapróf. Þetta er auðvitað alvarlegt og við þessu þarf að reyna að bregðast. Hluti af þessu getur reyndar verið að sá hópur sem hefur hærra menntunarstig, hvort sem er í verk- eða bóknámi, eigi líka betra með að ná sér í vinnu erlendis og þess vegna sé hærra hlutfall af því fólki sem flutt hefur af landi brott og farið er að leita sér að vinnu utan landsteinanna með hærra menntunarstig. En þetta segir okkur og ýtir undir mikilvægi þess sem liggur í aukinni þjálfun og menntunarstigi hjá ungu fólki. Þar held ég að við ættum sérstaklega að horfa til aukinnar verkþjálfunar og verkmenntunar. En það er kannski ekki síst þar sem skórinn kreppir og þar sem atvinnutækifærin eru í okkar landi og þar sem skortur er á að ungt fólk hafi haslað sér völl. Lögð hefur verið mikil áhersla á það í samfélaginu á undanförnum árum og jafnvel nokkrum áratugum að hvetja frekar til bókmenntunar en verkmenntunar og svo mjög að þegar hér var blómlegt atvinnulíf eins og við höfum horft upp á á undanförnum árum, þurfti í mörgum atvinnugreinum að flytja fólk inn erlendis frá til að sinna þeim störfum sem í boði voru.

Í sumum iðnstéttum í dag er lítið atvinnuleysi og hreinlega skortur á fólki og nokkurt atvinnuframboð. Þetta er partur af fræðslu á grunnskólastigi okkar sem þarf að fara þar fram vegna þess að fólk sem haslar sér völl á þessum vettvangi hefur ekki síður möguleika á því að hafa öflugar og góðar tekjur en þeir sem hafa farið í bóknám.

Það hefur verið nokkuð til umræðu og sérstaklega af hálfu aðila vinnumarkaðarins, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, að rétt væri að færa þjónustu við atvinnulausa, atvinnuleysisskráningu og eftirfylgni við þá þætti aftur til aðila vinnumarkaðarins. Hörð gagnrýni kemur úr þeirra röðum á það hve ferlið er þunglamalegt í dag og hve langt sé á milli þeirra sem lenda í atvinnuleysi og Vinnumálastofnunar. Ég held að það sé mjög áríðandi að hlusta vel á þessa gagnrýni og auka samstarfið við aðila vinnumarkaðarins og ég er reyndar á þeirri skoðun að rétt væri að færa þetta verkefni yfir til þeirra. Segja má að atvinnulífið borgi fyrir atvinnuleysið, þaðan er fjármagnið að mestu leyti tekið, þannig að það verður óneitanlega mikill hvati til þess að fara sem best með það fé og reyna að minnka þau útgjöld sem mest ef verkefnið er í þeirra höndum. Það verður líka ekki um það deilt að verkalýðsfélögin standa fólki á vinnumarkaði nær heldur en opinberar stofnanir. Verkalýðsfélögin eru með breiða félagslega þjónustu við félagsmenn sína og fólk á vinnumarkaði er vant því að fá upplýsingar og vera í sambandi við sín verkalýðsfélög og því er miklu líklegra að samtök þeirra séu betur í stakk búin, hafi bæði reynslu, þekkingu og þau sambönd sem til þarf til að gera þessa vinnu miklu afkastameiri. Verkalýðshreyfingin er með skrifstofur nánast út um allt land, Vinnumálastofnun getur aldrei sett upp slíka þjónustu. Þetta gæti að sama skapi eflt starfsemi verkalýðsfélaganna, gefið þeim grunn til að hafa öflugri starfsemi á sínum svæðum og þetta mundi klárlega hafa áhrif á bótasvik og eftirlit með þeim yrði miklu betra.

Ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal í því sambandi að skoða þurfi ítarlega viðurlög við bótasvikum. Við heyrum sögur af því og höfum lesið um það í blöðum að bótasvik séu nokkuð umfangsmikil, ekki síst á þeim vettvangi þegar kemur að atvinnuleysismálum, og það verða hreinlega að vera hörð viðurlög við slíkri ástundun.

Ég tek ekki undir það með hæstv. félagsmálaráðherra að félagsleg ábyrgð hins opinbera verði eitthvað rýrari við það að færa verkefnin til verkalýðsfélaganna eða samtaka þeirra. Ég held að hægt sé að gera það með þannig samningum að ríkið, hið opinbera uppfylli algerlega sína félagslegu ábyrgð og setji þær reglur sem þarf að starfa eftir í samráði við samtök verkalýðsfélaganna. Þetta yrði líka klárlega til þess að draga úr opinberum rekstri og það er kannski eitt markmiðið núna við þessar aðstæður að fara svolítið í gegnum það og full ástæða til að fara í gegnum það, hvar við getum dregið úr opinberum rekstri og fært þá verkefni að einhverju leyti til annarra aðila. Ég sé ekki annað en þarna sé alveg kjörið tækifæri til að stíga slíkt skref.

Það er gott og blessað að ræða hér til hvaða aðgerða hægt sé að grípa til að standa við bakið á fólki sem lendir í atvinnuleysi. Atvinnuleysi er eitthvert mesta böl okkar samfélags, þjóðar sem, eins og ég sagði áðan, hefur verið með einhverja mestu framleiðslu á einstakling, við erum vinnusöm þjóð, við eru tilbúin að vinna langan vinnudag. Og það er skelfileg tilhugsun ef þróunin leiðir til þess þegar við lendum í svona aðstæðum að við sjáum jafnvel félagslega þætti sem við höfum ekki haft áður í samfélaginu verða að raunveruleika, félagslega þætti sem nágrannaþjóðir okkar hafa verið að berjast við sem eru eilífðaratvinnuleysi og við getum kallað atvinnuatvinnuleysi, þ.e. fólk sem festist í viðjum atvinnuleysis og eins og hefur komið fram í öllum rannsóknum á sér litla von til að komast út úr til einhvers tíma litið ef það festist of lengi. Langtímum saman hefur verið lítið atvinnuleysi á Íslandi og þótt þessi félagslegu vandamál hafi vissulega verið til staðar að einhverju leyti hafa þau ekki verið svo mikil að þau hafi verið til sérstakrar umræðu.

Þá komum við að því sem skiptir öllu máli og það er að efla vinnumarkaðinn. Við sjáum að þegar atvinnuleysi var ekki viðvarandi, bara fyrir 1–2 árum síðan og árin þar á undan var heldur ekki mikið atvinnuleysi hjá ungu fólki, gátu allir fengið vinnu ef þeir vildu vinna. Það er það sem við eigum auðvitað að vera að ræða fyrst og fremst, hvernig við ætlum að efla atvinnulífið, hvernig við ætlum að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Það sem ég hef mestar áhyggjur af hjá hæstv. ríkisstjórn núna, virðulegi forseti, er það að aðgerðir hennar snúa miklu frekar að því að velta sér upp úr vandamálum, hvernig við eigum að bregðast við vandamálum eins og atvinnuleysi og til hvaða aðgerða við eigum að grípa, og því fylgir gjarnan aukinn ríkisrekstur eins og þær hugmyndir sem lagðar eru á borð fyrir okkur. Ég hef áhyggjur af þessu vegna þess að á hinum vængnum er ekkert verið að gera til að koma hjólum atvinnulífsins í gang og það er það alvarlega í þessu máli. Það er verið að stíga skref sem eru miklu frekar til þess fallin að draga úr afli atvinnulífsins, draga úr getu þess til að skapa tækifæri. Tryggingagjald sem á að standa undir atvinnuleysinu er auðvitað ekkert annað en skattur á atvinnuvegina og verður til þess að draga enn frekar úr möguleikum fyrirtækja til að efla starfsemi sína. Þær skattbreytingar sem við stöndum frammi fyrir núna og tillögur liggja fyrir um eru til þess fallnar að draga úr allri neyslu í samfélaginu. Hvar gerist það og hvað þýðir það? Það þýðir auðvitað aukið atvinnuleysi, ekkert annað, þetta er ávísun á aukið atvinnuleysi. Það á kannski alveg sérstaklega við um ungt fólk sem hefur unnið í ýmiss konar verslunar- og þjónustustörfum, ungt fólk sem kannski vill ganga menntaveginn, hefur ekki fjárhagslega bakhjarla heima við til að fara í skóla og hefur verið að stunda aukavinnu í verslunar- og þjónustufyrirtækjum til að geta framfleytt sér í gegnum skóla, í gegnum menntaskóla eða iðnskóla. En allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru í þá átt að reyna að draga úr getu atvinnulífsins.

Fjármagnstekjuskattur eins og hér var minnst á er ekkert annað en ný jöklabréf, virðulegi forseti. Hann þýðir það einfaldlega að fjármagn sparifjáreigenda bíður þess að komast úr landi um leið og gjaldeyrishöftum verður aflétt. Þetta er ekkert annað en viðbót við jöklabréfin sem við erum að reyna að berjast við. Það er alveg ljóst og má heyra af orðum þeirra sem eiga sparifé í landinu að menn horfa mjög til þess að koma því úr landi um leið og verða möguleikar til þess, þeir treysta ekki kerfinu. Við sjáum hvaða áhrif gjöld í stóriðju hafa og á sama tíma er talað um að þau eigi ekki að vera á nýframkvæmdum, en hvað eru nýframkvæmdir? Við sjáum hvað er að gerast í sjávarútveginum. Hversu margt ungt fólk og fólk úti um allt land hefur haft atvinnu af fiskvinnslu? Þetta er að leggjast af, virðulegi forseti, smábátasjómenn eru hættir að komast á sjó, allt út af aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þetta eru staðreyndir sem fólk verður að hlusta á, þetta vita landsbyggðarþingmenn úr röðum meirihlutaflokkanna á þingi. Það verður að bregðast við þessu af því að annars horfir í alveg stórkostlega aukna erfiðleika með auknu atvinnuleysi.

Sama á við um veitinga- og þjónustugeirann, ferðageirann okkar, sem hefur kannski verið helsta uppsprettan fyrir skólafólk í atvinnusköpun, fyrir skólafólkið, fyrir unga fólkið sem atvinnuleysið ræðst núna mest á. Á sama tíma, virðulegi forseti, bólgnar ríkisreksturinn út eins og við sjáum. Stóra málið er þetta, við verðum að bregðast við. Við verðum sem samfélag að standa við bakið á þeim sem eiga um sárt að binda vegna atvinnumissis en við verðum fyrst og fremst að beina aðgerðum okkar í það að koma hjólum atvinnulífsins í gang, þannig að hér verði ekki atvinnuleysi til frambúðar, að vinnufúsar (Forseti hringir.) hendur hjá þessari þjóð sem eru tilbúnar að fara út á vinnumarkaðinn fái verkefni við hæfi.