138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[16:48]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá góðu og málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram um þetta frumvarp og þá góðu tóna sem hafa verið slegnir í umræðunni. Ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi sagt að við eigum ekki að viðurkenna atvinnuleysi og ég er alveg sammála því. Við eigum ekki að viðurkenna þær aðstæður til langframa að við eigum að búa við atvinnuleysi, en ég held samt að það sé óhjákvæmilegur fylgifiskur flóknara atvinnulífs að atvinnuleysi láti á sér kræla. Ég held að það sé ekki raunsætt hjá okkur að horfa til stærstu bóluáranna og halda að atvinnuleysistölurnar þau árin upp á 1–2% hafi á einhvern hátt sýnt eðlilegt langtíma atvinnuleysisástand á Íslandi. Ég held að þar höfum við í krafti bólunnar verið að fela atvinnuleysið og að í jafnvægisástandi þurfum við að búa okkur undir að eitthvert atvinnuleysi fylgi okkur. Við þurfum líka að búa undir að það taki okkur tíma að vinna á þeim kúf sem nú hefur orðið til. Við skulum ekki búast við að hann leysist af sjálfu sér við það eitt að efnahagsástand batni. Flest bendir til víða um lönd að efnahagsbatinn verði hægur hvað atvinnuleysi áhrærir, þ.e. við munum sjá hagvöxt en honum muni ekki fylgja umtalsverð minnkun atvinnuleysis. Ástæðan er fyrst og fremst sú að aðgangur að lánsfé mun áfram verða erfiður jafnt hér á landi sem í öðrum löndum um langan tíma í kjölfar fjármálakreppunnar.

Hér nefndu margir réttilega að við mættum ekki rjúfa sátt og passa að ganga ekki of hart fram gagnvart þeim sem eru atvinnulausir og jafnframt að virða þá sem eru atvinnulausir og að aðgerðir valdi því ekki að fólk skammist sín fyrir það hlutskipti sitt. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að ganga fram með þeim hætti. Við verðum auðvitað að átta okkur á því að við þær aðstæður sem við búum við nú er það fullkomlega eðlilegt ástand að verða atvinnulaus. Fjöldi fólks hefur þurft að lenda í þeim aðstæðum og það er mjög mikilvægt að við greiðum sem kostur er götu fólks úr því ástandi.

Þær aðgerðir sem er að finna í frumvarpinu fela það fyrst og fremst í sér að einfalda endurkröfur vegna ofgreiddra bóta og tryggja viðveru fólks, og nota þá aðferð til að auka eftirlit en ekki beita einhverjum stórum stormsveitum til að hundelta fólk eða nota einhverjar aðrar þaðan af ómanneskjulegri aðferðir. Ég held satt að segja að stórfelldar endurkröfur og hótanir um fengelsisvist og annað slíkt, eins og kannski var ýjað að í umræðunni, séu ekki endilega eitthvað sem muni hjálpa okkur mikið. Aðferðin sem við förum er ósköp einföld, það er að einfalda endurkröfurnar þannig að þær verði stjórnsýslulega einfaldar í framkvæmd, að fólk viti að það muni þurfa að borga til baka ef það sækir sér bætur með órétti en við látum að öðru leyti hinu opinbera refsikerfi eftir aðgerðir ef um gríðarlega stórfelld svik er að ræða. Það er líka varhugavert að setja hér samasemmerki við skattkerfið því að þar er auðvitað um að ræða möguleika fólks á að svíkja milljarða og tugmilljarða og hundruð milljarða sem hér er í sjálfu sér ekki raunverulegur möguleiki fyrir venjulegt fólk að gera. Ég held að það skipti máli að við höldum þessu öllu í eðlilegu stærðarsamhengi.

Hvað á að gera, hverjar verða aðgerðirnar sem við grípum til gagnvart unga fólkinu? Það er mjög mikilvægt að undirbúa þær vel. Við erum með þær á lokastigi og munum væntanlega kynna þær síðar í vikunni. Þar er alveg ljóst að ein lausn mun ekki duga fyrir alla. Við verðum að nálgast þetta unga fólk með virðingu og við verðum að mæta þörfum hvers og eins fyrir það sem hver og einn treystir sér til á hverjum tíma, því að það er líka rétt að margir koma brotnir út úr skólakerfinu og eiga erfitt með að fóta sig í hinu formlega skólakerfi að nýju. Það ber þó á það að líta að framhaldsskóli er í dag annað og meira en bara bóknámið og það er margt í boði í framhaldsskólanum sem getur hentað ólíkum hópum ungs fólks.

Ég get ekki tekið undir það sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að við séum að velta okkur upp úr vandamálum með því að tala um þessi mál og að öllu skipti að efla bara vinnumarkaðinn og þá mundi þetta mál leysast af sjálfu sér. Atvinnuleysi meðal þessa hóps var ekki mjög ljóst í góðærinu vegna þess að þetta unga fólk, sem á erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði, gat einfaldlega valsað úr einu starfi í annað þó svo að það fyndi sig hvergi, þannig að vandi þess duldist okkur en vandinn er samt fyrir hendi. Og jafnvel þó að við fengjum önnur svona tryllingsleg veltiár eins og við höfum lifað síðustu ár þá er ekki þar með sagt að vandi þessa unga fólks eða sálarkvöl þess eða erfiðleikar þess að komast áfram í lífinu séu eitthvað minni. Það er því full ástæða til að taka á þessum málum og við eigum bara að þakka fyrir að fá að lifa þá tíma að þessi vandi hefur orðið ljós og við höfum ákveðið að einbeita okkur að því að leysa hann. Það er einfaldlega það sem við eigum að gera.

Hér var aðeins vikið að stöðu námsmanna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að benda á að þar erum við fyrst og fremst að horfa á að draga úr þeim fjölda eininga sem námsmenn geta verið skráðir í í lánshæft nám á sama tíma og þeir eru á atvinnuleysisbótum. Við ákváðum í haust að hækka mjög ríflega grunnframfærslu námslána til að greiða fyrir því að fólk færi í nám frekar en að vera á bótum. Því fylgdi á móti að við lækkuðum þetta hlutfall og þessi lækkun hlutfalls niður í 10 ECTS-einingar stendur því í beinu samhengi við hækkunina frá í haust. Það á að vera grundvallarregla í atvinnuleysistryggingakerfinu að þeir sem eru á atvinnuleysisbótum séu á höttunum eftir fullri vinnu og séu tilbúnir á morgun að taka fullri vinnu ella eru þeir ekki í atvinnuleit. Það voru þessi skil sem við vildum gera skýrari í haust og það hefur haft jákvæð áhrif á námslánakerfið og þess vegna er þessi breyting til samræmis lögð til hér.

Annað sem rétt er að nefna er afnám sumarbótanna. Það var einfaldlega svo í sumar að þá bjuggumst við jafnvel við enn meiri ásókn í sumarbætur en þó varð. 800 manns voru á sumarbótum og það er óskaplega erfitt að koma við almennum vinnumarkaðsúrræðum gagnvart slíkum hópi. Hvar finnur maður sumarstörf til að bjóða unnvörpum? Það er ekki auðvelt. Og hvað gerir maður við fólk þegar komið er fram í júlí og allir vita að starfskrafturinn verður farinn eftir fjórar vikur? Hver vill fá slíkan starfskraft? Enginn. Hver vill bjóða slíkum starfskrafti vinnu? Enginn. Fyrir vikið er því hættan sú að réttur til sumarbóta sé í reynd áskrift að framfærslu án vinnuframlags og ég held að við viljum ekki fara þá leið.

Sveitarfélögin hafa auðvitað boðið umtalsverða vinnu fyrir námsmenn, það er t.d. alveg ljóst að bæði Hafnarfjörður og Kópavogur tryggðu öllum sem voru atvinnulausir í sumar og í námi, alveg upp til 24 aldurs, vinnu. Ég held að það sé eðlilegri leið að félagsþjónusta sveitarfélaga taki við þeim sem ekki geta fengið vinnu. Við getum þá nálgast sveitarfélögin á þennan hátt því að ég held að það henti bara miklu betur að framfærslukerfi sveitarfélaganna taki á þessum þætti heldur en atvinnuleysistryggingakerfið. Við gætum alveg staðið frammi fyrir því að það væru ekki 800 sem sæktu sér þennan rétt eitthvert sumarið heldur fleiri þúsund og þá er þeim fjármunum einfaldlega illa varið. Í sumar kostuðu atvinnuleysisbætur til þessa hóps 300 millj. kr. og þeim hefði verið hægt að verja í eitthvað annað og betra. Við tengdum þessa hugsun um afnám sumarbótanna líka við hækkun á grunnframfærslu námsmanna í haust.

Hér var gerð að umtali örorkan, staða öryrkja og sú erfiða staða fólks sem fær ekki vinnu og staða eldra fólks á vinnumarkaði. Það er alveg rétt, margir búa við þær aðstæður að þurfa að fá betri vinnumarkaðsaðgerðir og meiri virkniaðgerðir en ég held samt að þær aðstæður sem við er að glíma hjá þessu unga fólki séu algerlega sérstakar. En við þurfum auðvitað að taka þarna mjög á og við þurfum að búa til samfélagslega samstöðu um virkari vinnumarkað þar sem vinnumarkaðurinn lítur á það sem sitt hlutverk að búa fólki með ólíka starfsgetu og á ólíkum aldri tækifæri til að vera á vinnumarkaði.

Hér var nefndur var flutningur á atvinnuleysistryggingunum til verkalýðshreyfingarinnar. Ég get ekki verið sammála því að sá tilflutningur leysi okkur með einhverjum hætti undan okkar samfélagslegu skyldum í þessu verkefni. Hins vegar er ég alveg tilbúinn að ræða við öll stéttarfélög um þau verkefni sem lúta að tengslum við félagsmenn og það erum við að gera í góðu samráði við öll stéttarfélögin núna og munum gera áfram og auðvitað er líka hægt að horfa á það hvort þau geti tekið að sér aukið hlutverk t.d. í vinnumiðlun. Ég held að það séu mörg slík verkefni, nærverkefni, sem við getum farið yfir með sveitarfélögunum hvort og hvernig þau geti sinnt.

Velt var upp spurningu um hið tímabundna gildi hlutabótaákvæðisins einungis til 30. júní á næsta ári og í því samhengi nefndi hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson hámarksfjárhæðir líka. Sú hámarksfjárhæð sem við nefnum að geti orðið fyrir bæði bætur og hlutastarf, rúmar 521 þús. kr., á auðvitað rætur í því að við teljum eðlilegt að mæta með ákveðnum hætti minnkandi starfshlutfalli víða hjá fólki á ágætum meðallaunum í ríkiskerfinu, sem stendur frammi fyrir verulegum uppsögnum eða samdrætti á næsta ári að öðrum kosti. Við teljum hins vegar við þessar aðstæður í samfélaginu eðlilegt að hafa þennan hálfs árs gildistíma. Við vorum með hálfs árs gildistíma á þessu ákvæði sem var að renna út núna og við teljum einfaldlega að þróunin sé svo ör í þessum málaflokki, eins og við sjáum á þeim breytingum sem við erum að gera núna, að það sé mikilvægt fyrir okkur að taka ekki ákvarðanir til lengri tíma um þessi tímabundnu atriði. Kannski erum við að gera eitthvað skakkt í þessu og þurfum að leiðrétta það í vor og þá er vont að vera búinn að binda hluti í heilt ár, en það er líka mikilvægt að gera þá kröfu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins að það komi inn með nýtt frumvarp með nýjar tilraunir til að sníða af agnúa eftir nokkra mánuði. Þetta er einfaldlega málaflokkur sem er í það mikilli deiglu og hann varðar okkur það miklu að það er fullkomlega eðlilegt að gera þá kröfu.

Hér var nefnt aðeins það ákvæði frumvarpsins sem felur í sér að heimilt sé að setja reglur sem bindi fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skilyrðum. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson nefndi réttilega að þarna væri snert við aldagamalli skyldu sveitarfélaga að sjá íbúum fyrir framfærslu. Ég vil taka það alveg skýrt fram að hugsunin með þessu ákvæði er ekki sú að hrófla við þeirri augljósu samfélagslegu skyldu sveitarfélaga að sjá öllum borgurum sveitarfélaganna fyrir framfærslu ef þeir geta ekki séð fyrir sér sjálfir. Hitt er aftur annað mál að sveitarfélögin þurfa líka að geta gert ákveðna samninga við þá sem njóta framfærslu hjá sveitarfélögunum. Þau gera t.d. námssamninga við þá sem ekki njóta réttar til lánshæfs náms og mjög mikilvægt að hægt sé að gera framvindusamninga í þeim tilvikum. Við erum líka að horfa til þess, eins og ég nefndi í framsöguræðu, að Vinnumálastofnun ber ábyrgð á að sjá fyrir vinnumarkaðsaðgerðum gagnvart fólki sem er tímabundið ekki með rétt í atvinnuleysiskerfinu. Það getur verið fólk sem hefur búið erlendis og hefur ekki áunninn rétt í íslenska kerfinu. Það getur líka verið fólk sem hefur synjað starfi og hefur þess vegna dottið út tímabundið en með sama hætti og við krefjum fólk í atvinnuleysistryggingakerfinu um virkni og þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum þá þarf sveitarfélag að geta gert það líka ef framfærsluskyldan er tímabundið hjá sveitarfélaginu. Ég tek skýrt fram að hér er ekki um að ræða skyldu sveitarfélaga til að skilyrða framfærslustyrk og hér er ekki um að ræða að sveitarfélögin geti í krafti þessarar lagaheimildar neitað fólki sem ekki getur tekið þátt í virkniaðgerðum um nauðsynlega framfærslu eða haldið mat frá sveltandi fólki, þvert á móti. Hér er fyrst og fremst verið að skapa þeim svigrúm til þess að í ákveðnum tilvikum þar sem þau telja þörf á geti þau tekið ákvarðanir sem þessar og við sérstakar aðstæður þar sem það er eðlilegt líka út frá samhengi hlutanna og líka ef maður horfir á fólk sem að öðru leyti gæti verið á leið í örorku taki þátt í einhverjum lágmarksvirkniaðgerðum, þannig að við hjálpum öllum til að vera í daglegri virkni og það er í reynd hugsunin á bak við þetta ákvæði.

Að síðustu þakka ég aftur fyrir þessa ágætu og málefnalegu umræðu og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.