138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[17:04]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er rétt hjá hv. þingmanni að hugsunin er að þarna verði til 750 milljónir sem nýtist í þessi úrræði sem verði bæði vinnumarkaðsúrræði og námsúrræði, fjölbreytt úrræði sem henti hverjum og einum. Talan er auðvitað fengin með ýmsum reiknikúnstarlegum aðferðum að hætti hins opinbera fjársýslukerfis þar sem menn reyna að meta hvað líklegt sé að gerist. Eftir stendur þetta og það vil ég segja alveg skýrt að í þetta verkefni verður ráðist, það verður ráðist í það strax. Við munum verja til þessa verkefnis á fyrri hluta næsta árs 750 millj. kr. eða hafa til ráðstöfunar þá upphæð. Við munum náttúrlega ekki nota hana nema úrræðin séu fyrir hendi. Komi til þess að ekki sé hægt að halda verkefninu áfram næsta vor vegna þess að sparnaður í kerfinu verði ekki nægur, liggur fyrir samþykkt ríkisstjórnarinnar og skilningur aðila vinnumarkaðarins á því að við endurmetum þörf fyrir hækkun tryggingagjalds eða grípum til annarra aðgerða í vor til að halda þessum aðgerðum áfram. Ef forsendurnar bregðast algerlega munum við einfaldlega fara í það endurmat fyrr. Við munum leggja af stað núna miðað við það að við höfum til ráðstöfunar á næsta ári 1,3 milljarða. Við teljum okkur þegar hafa tryggt fjármögnun fyrir fyrri hluta verkefnisins og við munum vinna á þeim forsendum og nýta það svigrúm sem skapast í kerfinu til að fjármagna það.