138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[17:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra kærlega fyrir góða greinargerð. Auðvitað var margt í þessu sem þarf að fara vel yfir og ræða í þinginu. Ég vildi aðeins lauslega fá að spyrja ráðherrann út í ákvæðið sem varðar frítekjumark öryrkja í þessu andsvari. Verið er að framlengja þar bráðabirgðaákvæði um frítekjumark öryrkja upp á 109 þús. kr. á mánuði, 1.315 þúsund, hygg ég, yfir árið, sem ég held að hafi verið mjög góð þverpólitísk samstaða um í þinginu, enda bæði mikilvægt í efnahagsástandinu eins og hæstv. ráðherra gat um en auðvitað ekki síður í þeirri viðleitni að virkja fólk til þátttöku, fólk sem stríðir við fötlun eða sjúkdóma, og mætir að mörgu leyti þeim háværu röddum sem hafa verið um það að við leitum leiða til þess að virkja öryrkja á ný til þátttöku á vinnumarkaði og til þess góða og gjöfula lífs sem hægt er að sækja með virkni og auðvitað jákvæðum áhrifum á heilbrigði.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra hvort loku sé fyrir það skotið að nefndin með stuðningi þingsins festi þetta ákvæði einfaldlega inn í, þannig að öryrkjar þurfi ekki að búa við þá óvissu að þetta sé bara framlengt tímabundið um skamman tíma í senn, því að ég held að réttindin séu út af fyrir sig sjálfsögð og um þau sé góð samstaða í þinginu. Ég veit til þess að því miður eru dæmi um það að öryrkjar hafa sagt sig frá vinnu vegna þess að þeir hafa talið að þessi bráðabirgðaheimild væri að falla niður nú um áramótin og þeir mundu ekki hafa heimild til þess að hafa tekjur í janúar umfram 25 þús. kr. Ég held að slíkur misskilningur sé sannarlega til óþurftar og væri til farsældar ef unnt væri að festa þennan jákvæða þátt í tillögum ráðherrans varanlega inn í.