138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[17:30]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það kostaði auðvitað nokkur útgjöld að halda inni þessu frítekjumarki en það er eins og hv. þingmaður nefnir afskaplega mikilvægt til að styðja við virkni og endurhæfingu öryrkja. Auðvitað er það svo að við getum ekki fikrað okkur í átt að aukinni áherslu á hæfni fólks og getu fólks nema með því að gera því kleift að vinna sér inn tekjur og skapa því rúm á vinnumarkaði.

Það sem við horfum til strax á vorþingi er að koma með frumvarp til laga um nýtt almannatryggingakerfi byggt á heildarendurskoðuninni stóru. Þar vonumst við til að leggja ákveðinn grunn hvað varðar öll frítekjumörkin. Frítekjumörkin eru mikill frumskógur og ég held að mikilvægt sé að greiða úr þeirri óreiðu og leggja ákveðin grunnprinsipp. Við náðum t.d. í vor, þrátt fyrir mjög þrönga stöðu ríkissjóðs, að búa til 10 þús. kr. frítekjumark fyrir lífeyristekjur ellilífeyrisþega, það hafði aldrei áður verið til. Það kostaði hins vegar hvorki meira né minna en 750 millj. kr. Hins vegar vitum við að ef við ætlum að ná að jafna út neikvæð áhrif 180 þús. kr. grunnframfærslu tryggingarinnar á ellilífeyrisþega með lítinn lífeyri, þurfum við helst að hækka þetta frítekjumark upp í 70 þús. kr. a.m.k. til að ná að jafna aðstæðurnar að fullu og öllu leyti og það er auðvitað markmið okkar. Við hinar erfiðu aðstæður í ríkisbúskapnum er erfitt að bæta mikið í frítekjumörkin en ég held að miklu máli skipti að setja meginregluna um þau í lög og gera það mjög einfalt fyrir ráðherra að hækka þau og við sköpum þar með stefnumörkunina um að þar ætlum við að láta aukin framlög til málaflokksins (Forseti hringir.) helst koma fram.