138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[17:42]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega slæmt að þurfa að grípa til aðgerða sem bitna á fólki sem hefur gert sínar áætlanir en hins vegar við þær aðstæður sem við erum í núna í efnahagslífinu hafa aðgerðir stjórnvalda áhrif á fólk víða með litlum fyrirvara. Ég held að það sé í sjálfu sér ómögulegt að grípa til aðgerða gagnvart útgjaldafrekum millifærslukerfum langt fram í tímann ef menn ætla að ná árangri snöggt í ríkisfjármálum og það skilur hv. þingmaður auðvitað.

Það er gaman að eiga orðastað við hv. þingmann um sjómannaafsláttinn. Ég hef lengi talið mjög mikilvægt að leggja hann af, og ég segi að það er gaman að eiga orðastað við þennan hv. þingmann um það vegna þess að ég get ekki einu sært hann til að styðja málið því að hann er líklega eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem mun treysta sér til að styðja þetta mál vegna þess að hann hefur oft talað fyrir afnámi sjómannaafsláttar. Ég held hins vegar að það væri gott ef hann ynni með okkur í því að vinna því máli frekara fylgis.

Ég ætla ekki að fara í grafgötur með það að ég tek eftir þessu ósamræmi en það þýðir ekki að ég geti skotið mér undan ábyrgð á því sem á mínu borði lendir og það er að ná utan um það mál að halda útgjöldum til millifærslukerfanna undir félags- og tryggingamálaráðuneytinu innan þess ramma sem aðhaldskrafa fjárlaga kveður á um. Þá höfum við reynt að hlífa þeim sem helst skyldi og láta breytingarnar ekki hitta fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna. Út á það gekk fyrsta hugmynd mín en ég viðurkenni alveg að á henni eru gallar út frá jafnréttissjónarmiði. Þess vegna er það niðurstaða mín að leggja (Forseti hringir.) fram það frumvarp sem hér er en óska jafnframt eftir því að nefndin (Forseti hringir.) taki það mál til hraustlegrar endurskoðunar.