138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[17:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum núna annað málið sem kemur frá hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og tengist breytingu á almannatryggingakerfinu, lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa, og fleirum, en síðast en ekki síst lögum um fæðingar- og foreldraorlof og ég mun beina máli mínu fyrst og fremst að þeim þætti, en engu að síður vil ég fara fyrst aðeins yfir nokkur atriði og þá fyrst og fremst þau sem ég tel að séu til bóta en þarf kannski engu að síður að fara betur út í varðandi útfærsluna innan félags- og tryggingamálanefndar.

Ég tel gott að menn undirstriki það bæði í þessu máli og málinu sem við ræddum áður að við eflum starfsendurhæfingu og reynum að koma fólki fyrr úti á vinnumarkaðnum, reynum að gera fólki kleift að velja, að það geti farið, án þess að það kosti það miklar byrðar, út á vinnumarkaðinn þrátt fyrir örorku, reynum að ýta undir hæfileika hvers og eins og fólk fái notið sín á grundvelli þeirra hæfileika sem það hefur upp á að bjóða. Ég held að hluti af þessu máli geti stuðlað að því, til að mynda breytingin á endurhæfingarlífeyrinum úr 12 mánuðum og upp í 18. Það er reyndar óútfært varðandi fjárhagslegu áhrifin af því að menn treysta sér ekki til að meta það sérstaklega hjá fjármálaráðuneytinu. En ég hef trú á því að ef rétt er á málum haldið muni hluti þessa fólks — við verðum að átta okkur á því að 60% þeirra sem hafa verið á endurhæfingarlífeyri fóru síðan á varanlegar örorkubætur árið 2008 — það er gríðarlega mikill akkur í því að reyna að vinna þessum hópi gagn með því að stuðla að því að hann komist út á vinnumarkaðinn, menn verði fullgildir þegnar með því að efla og styrkja endurhæfinguna og ég vona að með þessu úrræði verði sú raunin.

Ég vil undirstrika það sem ég kom aðeins inn á líka í andsvari mínu áðan við hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að það verður að veita alla vega öldruðum og öryrkjum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við félags- og tryggingamálanefnd. Þau þurfa ekki endilega að vera í samræmi við þetta frumvarp, ég efast um að svo sé, en það þarf að tryggja að þessi hópur fái möguleika til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, því að menn hafa verið að kvarta sérstaklega undan því að ríkisstjórnin sé ekki að hlusta. Þau bjuggust við miklu varðandi verkstjórnina, breytingarnar, og það er til í blaðagreinum og á fleiri stöðum á prenti að þau bjuggust við að við breytingar á ríkisstjórn yrði frekar hlustað á þau en svo virðist sem það hafi ekki verið raunin, þannig að ég hvet til þess sérstaklega.

Ég held að niðurstaða nefndar sem Bolli Þór Bollason var formaður fyrir og við höfum komið inn á í umræðunni sé mjög merkileg, því að það náðist ekki bara þverpólitísk samstaða um niðurstöðu þeirrar nefndar heldur í rauninni eining á meðal stjórnvalda, milli stjórnvalda og svo öryrkja og þess hóps sem niðurstöðurnar snerta fyrst og fremst. Ég fagna því sérstaklega ef sú er raunin, án þess að þess sé getið reyndar í greinargerðinni einhverra hluta vegna, að verið sé að fylgja niðurstöðu þeirrar nefndar eftir. Ég hef trú á því, eins og margir sem hafa fjallað um þetta mál og eru mun betur að sér í þessum málum en ég, miklu betur, að ef menn fylgja eftir þeim niðurstöðum og þeim tillögum munum við stuðla að því að öryrkjar eigi hægara um vik bæði til að vera fullgildir þátttakendur á vinnumarkaði og nýta þá hæfileika sem þeir búa yfir. Það er mikilvægt.

Ég ætla að koma núna að fæðingarorlofinu. Ég hjó eftir því að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sagði að það hefði verið haft samráð við þingflokka. Þá vil ég sérstaklega undirstrika að það var að sjálfsögðu ekki haft samráð við stjórnarandstöðuflokkana heldur hlýtur hann að hafa meint samráð við þingflokka Vinstri grænna og Samfylkingar. Það vekur mig auðvitað til umhugsunar um það að innan þeirra þingflokka eru þingmenn sem sérstaklega hafa talið sig vera merkisbera jafnréttisbaráttunnar og jafnréttis og hafa undirstrikað fæðingarorlof og mikilvægi þess. Þess vegna spyr ég: Hver var afstaða þeirra? Hvaða fyrirvara gerðu þeir á þingflokksfundum sínum? Ég trúi ekki að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir eða hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir eða aðrir þingmenn t.d. innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi látið þetta frá sér athugasemdalaust, ég trúi því ekki að óreyndu, eða hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir. Ég vil ekki trúa því. Það segir mér, ef það hefur verið látið fara athugasemdalaust, að það búi eitthvað meira þar að baki. Það sem býr auðvitað að baki, að mínu mati, er að viðhalda völdum. Það virðist að m.a. jafnréttinu að hluta til sé fórnandi fyrir vinstri stjórnina. Þetta eru sár orð og fá menn til að hrista höfuðið en þetta er bara svona.

Eftir áralanga baráttu allra flokka, fólks úr öllum flokkum náðist að koma í gegnum þingið fæðingarorlofi, miklu baráttumáli þar sem margir áttu hlut að máli. Þess vegna spyr maður sig: Er það kannski út af því að það var ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem kom þessu máli í gegn að það er réttlætanlegt að ráðast á þetta mál? (Gripið fram í.) Jafnréttismálin eru engin dekurverkefni. Þetta var langtímahugsun og langtímasjónarmið. Þá kemur hæstv. félagsmálaráðherra sem skiljanlega, og ég gat um áður, er vorkunn, og fær það hlutverk veskú að ná í 1.200 millj. En það er verið að ráðast á þennan sjóð í þriðja sinn, í þriðja sinn er verið að skera niður. Ég man alveg hvernig þetta var fyrir ári síðan. Það var hunderfitt og þá héldum við einmitt uppi þessum sjónarmiðum þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, núna forsætisráðherra, og ég þegar við með semingi féllumst á að skera niður Fæðingarorlofssjóðinn í fyrra. Þá vöruðum við sérstaklega við því að það yrði að meta áhrifin. Hvar eru sársaukamörkin? Hvenær förum við að veitast að, ráðast á það prinsipp sem við vorum fyrst og fremst að ná fram með samþykkt fæðingarorlofslaganna, jafnréttismálsins? Það er annars vegar jafnréttismál og hins vegar fjölskyldumál.

Það er litið til Íslands í þessum efnum, við erum fyrirmynd annarra þjóða í þessum efnum og það er verið að ráðast á þessi mál. Reyndar eins og í sumum öðrum málum þar sem við erum fyrirmynd á öðrum sviðum, eins og í sjávarútvegsmálum en það er önnur saga. Ég velti fyrir mér af hverju, og það er ekki hægt að segja bara að það þurfi að finna sparnaðarleiðir í ríkisfjármálum. Þá er þetta bara vitlaus forgangsröðun. Það er verið að ráðast á þennan sjóð í þriðja sinn. Við mótmæltum ekkert mjög mikið í sumar þegar farið var í annað sinn í sjóðinn af því að við skildum þetta. En þegar komið er í þriðja sinn án þess að hafa hugsað út í afleiðingarnar, meta heildarmyndina, þá er farið af stað með það að skera eigi niður í þessum sjóði. Síðan hrökklast menn til baka, eftir að ungir jafnaðarmenn, ung vinstri græn, BHM mótmæltu fyrir utan andstöðu ýmissa stjórnarandstöðuþingmanna í þessu máli, og henda fram einhverri hugmynd til að uppfylla kröfurnar, bara einhverri hugmynd, höldum við áfram að ráðast á fæðingarorlofsmálið, jafnréttismálið, henda bara inn einhverri hugmynd um að fresta einum mánuði af fæðingarorlofinu um þrjá mánuði. Er búið að meta hvaða áhrif það hefur? Er hugsanlegt t.d. í ljósi þess atvinnuástands sem nú er að það verði bara enginn sem taki þetta af því að menn eru hræddir við atvinnuástandið, þannig að réttur barnsins til að vera með foreldrum sínum í níu mánuði rýrist að sama skapi? Eru menn búnir að meta þessa þætti? Nei, menn eru ekki búnir að meta þá og það er hjákátlegt að þetta skuli vera ríkisstjórnin sem undirstrikaði í sinni leikrænu tjáningu að jafnréttismálin væru svo gríðarlega mikilvæg að menn settu þau undir forsætisráðuneytið. Ég held að jafnréttismálunum hefði jafnvel verið betur borgið áfram í félagsmálaráðuneytinu undir forustu hæstv. félagsmálaráðherra Árna Páls Árnasonar en undir forsætisráðherra. Það er hjákátlegt að horfa á þetta og þetta er einhver sýndarmennska.

Hægt er að benda á margar aðrar sparnaðarleiðir. Það er hægt að nefna utanríkisþjónustuna, sameiningu stofnana. Það er hægt að nefna ótekjutengdar barnabætur, lítandi í eigin barm. Það er hægt að finna margar aðrar sparnaðarleiðir því að við megum ekki út af skammsýni núna fórna þessu máli. Þetta er langtímamál, þetta er mál sem snertir réttindi kvenna til að vera í jafnri samkeppnisstöðu þegar kemur að því að leita sér starfa á vinnumarkaði. Af hverju hefur verið til lengri tíma þessi mikli kynbundni launamunur á markaðnum? Af hverju? Svo þegar við erum komin með raunhæfar leiðir á bara að rústa kerfinu. Og það er vinstri stjórn sem er að rústa kerfinu, það er vinstri stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Hvar eru femínistarnir núna? Af hverju þegja þeir þunnu hljóði? Af því að það er óþægilegt að gagnrýna þá flokka sem vill svo til að afgreiða málið með þessum hætti? Og ekki bera fyrir ykkur sparnaðarleiðir, það er hægt að spara á öðrum stöðum í kerfinu. Þetta er langtímamál og þetta snertir jafnrétti og ég undirstrika að jafnréttismálin eru ekki dekurverkefni, ekki eitthvað sem hægt er að stinga undir stól þegar erfiðleikar eru fram undan.

Sveitarfélögin, hafa menn metið hvaða kostnaðarauki þetta verður fyrir sveitarfélögin? Nei, menn hafa ekki metið það. Hefur verið talað við sveitarfélögin? Nei, ekki heldur. Er ríkisvaldið að bæta núna aukakostnaði á herðar sveitarfélaganna? Það er mjög líklega þannig því að það verður þeirra, skyldur sveitarfélaga að koma til móts við foreldra eru lögbundnar og þau fá börnin til sín fyrr.

Ég vil líka spyrja hæstv. félagsmálaráðherra af því að ég veit að hann kemur upp í lok umræðunnar og ég náði ekki að spyrja hann að því áðan. Þegar maður lítur yfir kostnaðarmatið með frumvarpinu segir þar m.a., með leyfi forseta, að verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlað að útgjöld ríkissjóðs muni lækka tímabundið um samtals 1.290 millj. Munið að það eru 1.200 millj. sem menn eru að fresta hér, menn eru í rauninni að fresta vandanum, það er ekki verið að taka á þessu máli. Menn segja bara: Æ, þetta er óþægilegt mál, við skulum bara ýta því frá okkur fram til 2013. En síðan segir að á móti sé áætlað að önnur útgjöld aukist um samtals 194 millj. kr. og verði því nettóáhrifin samtals um 1.096. Ég spyr: Er breytingunni á fæðingarorlofinu og fæðingarorlofslöggjöfinni ætlað að fjármagna önnur útgjöld ríkisins í þessu? Á að skerða fæðingarorlofið og fæðingarorlofsprinsippið til að koma fram öðrum útgjöldum? Það er ekki hægt að lesa annað því að hér stendur að nettóáhrifin verði samtals tæplega 1.100 millj. kr. en sparnaður einn og sér með fæðingarorlofinu og frestuninni á að vera 1.200. Það er ekki hægt að lesa þetta öðruvísi en svo að verið sé að skera niður í Fæðingarorlofssjóðnum með því að auka útgjöld ríkisins á öðrum stað.

Hvar er jafnaðarstjórnin? Hvar er jafnréttisstjórnin? Þetta er bara Icesave-stjórnin og hún verður þekkt fyrir það að neyða Icesave í gegnum þingið og skerða fæðingarorlofið, tala niður jafnréttismálin. Það er margt við þetta að athuga og ég fann að mörgu leyti til með hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra þegar hann kom upp áðan og sagði: Þetta eru vondar hugmyndir. Hann var reyndar búinn að segja áður í fjölmiðlum: Þetta eru vondar hugmyndir, þinginu ber að leysa þetta. Já, já, þingið mun örugglega reyna að leysa þetta og reyna að fara yfir þetta en það gengur ekki að þetta séu áherslur ríkisstjórnar Íslands, ríkisstjórnar sem á að standa vörð um það að passa þau tæki sem hjálpa konum sem körlum í baráttu sinni í átt að jafnrétti. Þetta er mikilvægasta jafnréttistækið sem við höfum. Við getum farið í margt, margt annað en þetta er skilvirkt tæki. Við vitum það núna að konur standa jafnfætis körlum þegar þær sækja um starf. Ég veit ekki hversu margar sögur ég fékk að heyra frá atvinnurekendum þegar við vorum að koma þessu máli í gegn sem sögðu: Þetta er eina skynsamlega leiðin fyrir ykkur að fara þessa leið, eina skynsamlega leiðin, því að þegar við stöndum frammi fyrir því að ráða þrítuga konu eða þrítugan karl, t.d. forritara þar sem þarf mikla viðveru, veljum við alltaf karlinn af því að við vitum að hann fer ekki meðan þrítug kona fer. Og loksins þegar búið er að ná þessu prinsippi fram og þessu jafnréttis- og samkeppnisgrundvelli fyrir konur fer vinstri stjórnin að hrófla við þessu í þriðja sinn.

Það er ekki svo að við sjálfstæðismenn höfum ekki tekið þátt í því að ná fram sparnaði í gegnum niðurskurð á Fæðingarorlofssjóðnum, það skal enginn halda það, við höfum tekið þátt í því líka. En það er komið að sársaukamörkunum og það sorglega er að ríkisstjórnin hefur ekki einu sinni spáð í hvaða afleiðingar þessar tillögur hennar hafa í för með sér. Þess vegna vil ég ítreka það að ef menn ætla að koma hér og segja að það þurfi að ná fram sparnaði, þá lítið ykkur nær. Farið og skoðið heildarmyndina í ríkisfjárlögum. Það er hægt að spara á mörgum öðrum stöðum en ekki í þessu prinsippmáli sem verður að teygja sig yfir fjárlagaárið 2010, yfir fjárlagaárið 2011. Þetta er mál sem þarf að standa lengi til að jafnrétti náist hér á landi. Við eigum enn þá langt í land og þá eigum við ekki að fórna því tæki sem hjálpar okkur eitthvað áleiðis. Munið að jafnréttismál eru ekki dekurmál.