138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir að koma hingað upp og setja fram hvassar en líka mjög málefnalegar spurningar. Nei, ég ætla ekki að styðja kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja því að ég er sannfærð um að kynjakvóti, hvort sem það er í stjórnmálaflokkum eða innan fyrirtækja, eigi í rauninni ekki rétt á sér. Ég vil að fólk sé metið að verðleikum en ekki á grundvelli þess hverra manna það er, hvers kyns það er heldur hvað það hefur fram að færa. Og ég trúi því einmitt að m.a. með tilstuðlan fæðingarorlofsins eins og það liggur fyrir breyti samfélaginu, hægt, stundum of hægt, en engu að síður held ég að það muni breyta þessari hugmynd. Enda sjáum við bara hvernig til að mynda þingið hefur breyst á nokkrum árum, hvernig kynjahlutföllin hafa núna með síðustu kosningum líka breyst. (Gripið fram í.) Ég sé alveg að það eigi að gerast með öðrum hætti. Ég held að það sé ekki gott fyrir konur að koma inn á grundvelli kynjakvóta, það er mín skoðun. Ég tel líka að fyrirtækin eigi að axla þá ábyrgð að átta sig á þessu mikilvægi og þau eiga heldur ekki að komast hjá því að vera gagnrýnd fyrir það þegar þau uppfylla ekki nákvæmlega þessar kröfur í samfélaginu. Og það er eiginlega frekar þannig að fyrirtæki hafi fengið að vera of mikið í friði fyrir gagnrýni af hálfu okkar stjórnmálamanna og annarra varðandi það að líta ekki til beggja kynja. Ég vil frekar vinna að því þannig en koma á lögbundnum kynjakvóta sem ég er á móti.

Varðandi tekjustofninn er ég ekki sammála því að það eigi að krukka í tryggingagjaldinu, ég er einfaldlega ekki sammála því. Ég segi: Meiri niðurskurð annars staðar og það er vel hægt. Við sjálfstæðismenn erum að vinna að okkar tillögum innan fjárlaganefndar og það er hægt að benda á margvísleg dæmi um útþenslu síðustu ára varðandi ríkiskassann. Við sjálfstæðismenn eigum að sjálfsögðu þar hlut að máli veit ég vel, vitandi það hvernig menntamálaráðuneytið þandist út á síðustu árum. Það er hægt að ná aukinni hagræðingu í ríkisrekstri. (Forseti hringir.) Við eigum ekki að ráðast á þau tæki sem virka, við eigum frekar að fara í niðurskurð á öðrum sviðum en á sviði þessa jafnréttismáls.