138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að fara í sögulegar pælingar um kynjakvóta og jafnrétti á listum. Ég veit bara að til að mynda á lista sjálfstæðismanna í Suðvesturkjördæmi hafa alltaf verið nokkurn veginn jöfn kynjahlutföll. Það er bara af því að fólkið hefur valið listann þannig. Þess vegna verður maður að halda umræðunni vakandi, vekja fólk til umhugsunar en þvinga það ekki að einhverri fyrir fram gefinni niðurstöðu um að það verði að vera ákveðnir einstaklingar sem fá ákveðin sæti. Ég held að það sé mikilvægt að fólk finni þennan hvata hjá sér sjálft, þá axlar það meiri ábyrgð, það verður meðvitaðra um ábyrgðina en getur ekki skýlt sér á bak við lög og bak við réttinn um að þetta eigi að vera með einhverjum tilteknum hætti. Fyrirtækin sum hver hafa axlað sína ábyrgð með góðri kynjaskiptingu en allt of mörg hafa komist hjá því að skipa fleiri konur í stjórnir sinna fyrirtækja og þá verða þau einfaldlega að þola gagnrýni á það, en þau eiga ekki að gera það undir formerkjum lagasetningar.

Varðandi frekari tillögur, við munum bæði koma með tillögur varðandi niðurskurðinn og varðandi gjaldahliðina en við höfum náttúrlega komið með tillögur varðandi tekjuhliðina sem hefur gríðarlega mikla þýðingu. Þá er ég að vísa m.a. til séreignarsparnaðarins sem hefði gríðarlega mikla þýðingu fyrir tekjuhlið ríkissjóðs og sveitarfélaganna á næstu árum. Þá erum við að tala um þá 115 milljarða sem hægt er að fá í gegnum séreignarsparnaðinn, 75 milljarða til ríkisins og 40 til sveitarfélaga. Það er hægt að fara aðrar leiðir, við sjálfstæðismenn erum ekki bara að tala um að hægt sé að fara aðrar leiðir, við höfum bent á þær en því miður höfum við ekki fengið mikla umræðu, til að mynda af hálfu stjórnarliða og þó að hv. þingmaður hafi tekið þátt í þeim hafa aðrir ekki sýnt þeim mikinn áhuga. Ég hefði viljað sjá menn ræða aðrar leiðir í tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs til þess m.a. að forðast málið sem ég hefði haldið að væri samstaða (Forseti hringir.) um að verja, þ.e. jafnréttismálið, til lengri tíma litið, hæstv. forseti.