138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Herra forseti. Þetta er ansi yfirgripsmikið frumvarp og við tökum vonandi góðan tíma í að ræða það allt saman í félags- og tryggingamálanefnd. Það eru bara tvö atriði sem ég vil beina máli mínu að varðandi þetta frumvarp að þessu sinni, það er annars vegar um endurhæfingarlífeyrinn og hins vegar um Fæðingarorlofssjóð. Öðru fagna ég og hinu ekki.

Ég fagna því að tvöfalda eigi hámarkstíma endurhæfingarlífeyris þannig að endurhæfingarlífeyrir geti verið allt að 36 mánuðir, en vil þá líka nota tækifærið til að auglýsa eftir því úr ranni hæstv. ráðherra hvernig nýta á þetta aukna svigrúm á endurhæfingarlífeyri og hvernig á að stuðla að því að endurhæfingarlífeyririnn gagnist til að koma fólki sem á honum er aftur út á vinnumarkaðinn og aftur í virkni í samfélaginu. Það þarf auðvitað að hugsa þetta. Þetta hangir náttúrlega saman við það sem við ræddum áðan varðandi vinnumarkaðsúrræði í tengslum við breytingar á Atvinnuleysistryggingasjóði að þarna þarf að hafa fjölbreytt úrræði. En ég ætlaði aðallega að tala um Fæðingarorlofssjóð.

Mér finnst það einfaldlega bera vitni um ákveðna forgangsröðun að hér sé farið í þriðja skipti að skerða greiðslu til fæðingarorlofs. Þannig er þá bara forgangsröðunin, fyrst er farið í skerðingar á greiðslu til fæðingarorlofs og svo er aftur farið í skerðingar á greiðslu til fæðingarorlofs og nú á að fara í þriðja skiptið á meðan það er kannski ekki byrjað að vinna af næstum því nógu miklum rausnarskap að sparnaði almennt í hinu opinbera kerfi. Ef einhver heilbrigð forgangsröðun væri í gangi ættu aðstæður auðvitað miklu frekar að vera þannig að við stæðum núna frammi fyrir því að verið væri að skerða í þriðja skipti til hins opinbera, almennt til kerfisins, til reksturs ráðuneyta og þess háttar og við værum hugsanlega að byrja að hugsa um það að skera niður til Fæðingarorlofssjóðs.

Fæðingarorlofskerfið íslenska er ansi merkilegt og framsóknarmenn hafa mjög lengi verið stoltir af því að þessu kerfi skuli hafa verið komið á fót í tíð framsóknarmanna í félagsmálaráðuneytinu. Það var Páll Pétursson, sem þá var félagsmálaráðherra, sem kom á feðraorlofi sem er risastórt og merkilegt jafnréttismál. Ég fagna því út af fyrir sig að menn hafi ekki hlustað á þær raddir sem hafa viljað bakka með þann merkilega hluta fæðingarorlofslaganna að hér sé feðraorlof. Það er gríðarlega mikilvægt jafnréttismál. Hins vegar er núna lagt upp í þá vegferð, eins og menn segja í pólitíkinni, að fara að skerða mánuðina. Mér finnst það gríðarlega alvarlegt að við séum komin á þann stað og ég skil þetta heldur ekki sem sparnaðarúrræði vegna þess að hér er náttúrlega bara verið að fresta kostnaði. Hér ætla menn að ná milljarði, segja þeir, með því að krukka með hugsanlega mjög afdrifaríkum hætti í þessu góða kerfi til þess eins að skapa kostnað í framtíðinni. Ef ég set þetta upp sem fjóra kosti sem við hefðum í stöðunni þá er þessi sá lakasti. Hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir nefndi sitt úrræði í þessari stöðu, að hún vildi skera niður annars staðar. Ég tek undir það, ég held að það sé kostur númer eitt. Í ljósi þess að þegar er búið að skera fjármagn til Fæðingarorlofssjóðs niður hlýtur að vera komið að því núna að skera frekar niður annars staðar, ef menn eru með einhverja heilbrigða forgangsröðun, sérstaklega í ljósi þess að ríkisvaldið tútnaði út á mörgum sviðum á árabilinu 2007–2009 eins og ég hef rakið í þingræðum, tútnaði ævintýralega út. Svigrúmið til sparnaðar á því að vera miklu meira en svo að við þurfum að ráðast í það í þriðja skipti að skera niður til Fæðingarorlofssjóðs. Það er auðvitað kostur númer eitt að fara í sparnað annars staðar og ég geri ráð fyrir að hæstv. félagsmálaráðherra taki undir það vegna þess að hæstv. ráðherra sagði sjálfur á Morgunvaktinni 30. nóvember 2009, í viðtali þar, um aðhaldsstigið, svo ég vitni beint í hæstv. ráðherra, með leyfi forseta: „… mér hefur þótt aðhaldsstigið annars staðar einkennast af miklu alvöruleysi …“ og á þar við aðhald í öðrum ráðuneytum. Hæstv. ráðherra er þess vegna væntanlega sammála mér um það, ef hann meinti eitthvað með þessum orðum, að hægt sé að spara annars staðar í ríkisrekstrinum og fara þá ekki í skerðingu í þriðja skipti á fæðingarorlofsgreiðslunum. Þetta er fyrsti kosturinn, fyrsti kosturinn er að skera niður annars staðar.

Kostur númer tvö er að nýta sér það að Fæðingarorlofssjóður er með sérstakan tekjustofn sem er í tryggingagjaldinu. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir minntist á það áðan í andsvari að það þyrfti 0,17% hækkun á tryggingagjaldi til að mæta þessari fjárþörf. Það finnst mér þá vera kostur númer tvö. Mér finnst þá líka að við eigum af þessu tilefni að hugsa hvernig við ætlum að fjármagna sjóðinn í framtíðinni. Ég held að það gangi ekki að skera alltaf niður til Fæðingarorlofssjóðs, þrisvar ef ekki fjórum sinnum — hvað veit ég? í hvert einasta skipti sem kreppir að í þjóðfélaginu. Það er ekki sanngjarnt. Við ætlum væntanlega að reka þjóðfélag þar sem við eignumst börn bæði í kreppu og góðæri. Þetta er einfaldlega órjúfanlegur hluti af lífinu. Þetta er eitthvað sem við þurfum að fjármagna, svo ég orði það svo kaldranalega, og við verðum auðvitað að hafa tekjustofn þessa sjóðs þannig að honum sé gert kleift að fjármagna þennan órjúfanlega og fallega hluta af lífinu að við eignumst börn, hvort sem það er kreppa eða góðæri. Við verður að huga að því hvernig þessi sjóður getur jafnað sveiflurnar betur. Nú er innbyggð í sjóðinn ákveðin sveiflujöfnun, hann greiðir náttúrlega minna út eftir því sem laun lækka í þjóðfélaginu og nú hafa laun lækkað undanfarið í þjóðfélaginu og því er viðbúið að útgjöld sjóðsins verði þá lægri sem því nemur, þannig að þar er ákveðin sveiflujöfnun. Síðan getum við líka hagað tekjuöflun sjóðsins þannig að við öflum meiri tekna í hann þegar vel gengur í samfélaginu til að standa straum af kostnaði þegar illa gengur. Í öllu falli er það órjúfanlegur hluti af lífinu að við ætlum að eignast börn og þessi sjóður á að styðja við það góða markmið okkar og við verðum auðvitað að hugsa hann þannig. Þetta er kostur númer tvö sem ég nefni hér. Og við erum hvort sem er í raun og veru ekki að spara neitt með þessum aðgerðum, við erum að fresta kostnaði fram í framtíðina. Maður gæti því vel hugsað sér að við tækjum til endurskoðunar þennan tekjuöflunarþátt sjóðsins og við mundum t.d. gera það að tillögu okkar, og mér finnst sjálfsagt að ræða það í félags- og tryggingamálanefnd, að gjaldið verði hækkað einhvern tíma í framtíðinni, t.d. eftir tvö ár. Það hefur verið nefnt hér, og ansi athyglisverð yfirlýsing, að líklega muni birta til í efnahagslífinu 2011. Eigum við ekki að setja okkur það markmið að við öflum frekari tekna í sjóðinn þá til að standa straum af kostnaði nú og koma þá á þessu sveiflujöfnunarfyrirkomulagi sem ætti auðvitað að gilda í rekstri þessa sjóð, hann er með sérstakan tekjustofn? Þetta er því leið númer tvö sem ég nefni.

Þriðja leiðin væri þá sú ömurlega leið í þriðja skipti að lækka hámarksgreiðslur og það er sú leið sem hæstv. félagsmálaráðherra ætlaði að fara en bakkaði með. Ég hefði þó frekar og vil frekar sjá þá leið farna en þá sem hann boðar nú. Ég ítreka það að ég er búinn að nefna þó tvær aðrar leiðir sem ég held að séu mun skynsamlegri. Ég er ekki alveg sammála því mati að það að lækka þakið þurfi endilega að leiða til þess að tekjuhærra foreldrið hætti við að taka fæðingarorlof. Tekjuhærra foreldrið hefur alltaf þennan rétt og ég held að það þurfi að vera ansi mikil skerðing á tekjum til að tekjuhærra foreldrið nýti sér ekki þennan rétt, ég held það einfaldlega. Ég held að þó að þetta yrði sársaukafullt, sérstaklega þegar verið er að gera þetta í þriðja skipti, þá sé þetta skárra en sú leið sem hefur verið boðuð. Ég held líka að hugsanlega sé það vanmetið að tekjuhátt foreldri hefur náttúrlega svigrúm vegna tekna sinna til að mæta skerðingu í tekjum tímabundið með því að taka fæðingarorlof. Ég er þess vegna ekki alveg sammála þeim rökum að það sé varhugavert að fara í það að lækka hámarksgreiðslurnar, a.m.k. er það skárra en er gert núna. Þetta er sísta leiðin sem hér er lagt upp með, að skerða mánaðafjöldann, og ég er alfarið á móti því og ég vona að þau sjónarmið mín fái einhvern grundvöll og stuðning í vinnu nefndarinnar við þetta lagafrumvarp, sérstaklega vegna þess að ég hef nefnt alla vega þrjár leiðir sem eru skárri og sumar ansi miklu skárri en sú leið sem ráðherra boðar nú.