138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Frumvarp þetta flytur forsætisnefnd en drög að því voru unnin á vegum skrifstofu þingsins í samvinnu við rannsóknarnefnd Alþingis. Tilgangur þess er að skýra ákveðin atriði er tengjast úrvinnslu skýrslu rannsóknarnefndarinnar og frágangi mála eftir að skýrslan verður gerð opinber. Nú liggur fyrir að skýrslunni verður skilað fyrir lok janúar 2010 en ekki nóvember 2009 eins og áætlað var og því er lögð til breyting á lögunum að þessu leyti.

Að öðru leyti er efni frumvarpsins þríþætt. Í fyrsta lagi er þar kveðið á um hvernig Alþingi eigi að standa að umfjöllun um skýrsluna en samkomulag hefur orðið innan forsætisnefndar um fyrirkomulag þess. Í öðru lagi er bætt við lögin ákvæði um varðveislu og aðgang að þeim viðamiklu rafrænu gagnagrunnum sem orðið hafa til í vinnu rannsóknarnefndarinnar. Að lokum er þar sett ákvæði sem tryggir þeim einstaklingum sem unnið hafa að rannsókninni ákveðna friðhelgi gegn hugsanlegum málsóknum út af framlagi þeirra í þessu máli.

Áður en lengra er haldið er rétt að rifja í stuttu máli upp hvers vegna Alþingi ákvað fyrir um ári síðan að hrinda af stað þessari viðamiklu rannsókn. Tilefni hennar er öllum kunn, hrun fjármálakerfisins á Íslandi sem leiddi yfir samfélag okkar djúpa efnahagskreppu. Flestir hafa myndað sér einhverja skoðun á því hvað olli hruninu og hverjir bera ábyrgð á því. Þær skoðanir eru auðvitað reistar á misjafnlega traustum grunni. Tilgangur rannsóknarinnar er að leggja heildstætt og faglegt mat á þessi atriði. Til að geta svarað spurningum eins og: Hverjir komu okkur í þennan vanda? Hverjir áttu að gera sér grein fyrir honum og hverjir voru í aðstöðu til að koma í veg fyrir að svona illa fór? þá þurfa áreiðanlegar upplýsingar að liggja fyrir um stöðu fjármálakerfisins, aðgerðir bankanna og viðbrögð stjórnvalda. Það er af þessum ástæðum sem rannsóknarnefnd Alþingis var komið á fót og henni falið að leita sannleikans um ástæður bankahrunsins og lýsa afstöðu sinni til þess hvort einhverjum hafi orðið á mistök í aðdraganda þess. Rannsóknarnefndinni var hins vegar ekki falið að úrskurða um sekt og sakleysi manna eða ákveða hvernig bregðast eigi við. Málinu lýkur því ekki þegar skýrsla rannsóknarnefndarinnar liggur fyrir heldur verður að fylgja niðurstöðum hennar eftir.

Við afhendingu skýrslunnar mun hún að sjálfsögðu verða birt opinberlega og því gefst hverjum sem er færi á að móta sér afstöðu til þess sem þar kemur fram. Þannig gefst samfélaginu í heild, stjórnvöldum og erlendum aðilum færi á að bregðast við skýrslunni og draga lærdóm af því sem gerðist hér á landi haustið 2008. Þá mun sérstakur saksóknari og einstök ráðuneyti þurfa að vinna úr einstökum ábendingum rannsóknarnefndarinnar um mögulega ábyrgð manna. Að öðru leyti hlýtur það að heyra undir Alþingi að fjalla um skýrsluna.

Nokkuð hefur borið á efasemdum um að Alþingi sé réttur aðili til að fylgja skýrslu rannsóknarnefndarinnar eftir. Slíkar efasemdir virðast að sumu leyti byggjast á ákveðnum misskilningi á hlutverki og stöðu Alþingis í okkar lýðræðissamfélagi. Alþingi er eina stofnunin hér á landi sem hefur lýðræðislegt umboð til að ráða fram úr sameiginlegum hagsmunamálum þjóðarinnar og segja handhöfum framkvæmdarvaldsins fyrir verkum. Þá bera ráðherrar ábyrgð á embættisathöfnum sínum gagnvart Alþingi og þingið getur eitt tekið afstöðu til þess hvort á þá ábyrgð reynir samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar. Þess vegna er það beinlínis hlutverk Alþingis að leggja mat á viðbrögð ráðherra og annarra stjórnvalda í þessu máli, draga lærdóm af mistökum og bæta úr því sem aflaga hefur farið. Þó að hrun fjármálakerfisins sé á ýmsan hátt sneypa fyrir ríkisvaldið verður ekki undan því vikist að Alþingi fjalli um það út frá þessum forsendum.

Í frumvarpinu er umfjöllun Alþingis um niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar sett í ákveðinn farveg. Þar er leitast við að tryggja að skýrslan fái vandaða og ítarlega meðferð og að viðbrögð þingsins verði bæði fumlaus og skýr. Níu þingmenn verða kosnir í þingmannanefnd sem er ætlað að fara vandlega yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar og móta viðbrögð Alþingis við niðurstöðum hennar. Henni er síðan ætlað að skila skýrslu til Alþingis ásamt tillögum og öðrum þingmálum eftir því sem efni máls krefur. Þingmannanefndin getur vissulega leitað aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf er á. Stjórnskipanin leyfir aftur á móti ekki að aðrir en þingmenn eigi hlut í málflutningi þingmála. Því verður nefnd sem er ætlað að þetta hlutverk að vera skipuð þingmönnum en ekki utanþingsmönnum.

Þá er mikilvægt að skipan nefndarinnar endurspegli eftir fremsta megni litróf stjórnmálanna á Alþingi. Því mælist forsætisnefnd til þess að þingflokkarnir komi sér saman um einn lista við kosningu nefndarinnar þar sem allir flokkarnir eigi a.m.k. einn fulltrúa.

Ekki er á þessu stigi hægt að ákvarða viðfangsefni þingmannanefndarinnar. Það mun ráðast af umfjöllun rannsóknarnefndarinnar og niðurstöðum hennar. Væntingar standa þó til þess að skýrsla hennar geti orðið faglegur grundvöllur að almennu uppgjöri málsins og að íslensk stjórnmál og samfélagið í heild geti dregið af því einhvern lærdóm. Eðlilegt er að þingmannanefndin hugi að þessum atriðum. Þá kemur það væntanlega í hlut hennar að móta afstöðu til ábyrgðar í málinu að því marki sem það er hlutverk þingsins. Þá má ætla að þingmannanefndin muni fylgja eftir ábendingum rannsóknarnefndarinnar um breytingar á lögum og reglum. Fjallað er nánar um störf þingmannanefndarinnar í frumvarpinu og vísa ég til athugasemda við það um þau atriði.

Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni, virðulegi forseti, er í frumvarpinu ákvæði um varðveislu og aðgang að ýmsum rafrænum gagnagrunnum sem hafa orðið til í vinnslu rannsóknarnefndarinnar. Gagnagrunnar þessir byggjast á rafrænum upplýsingum sem rannsóknarnefndin hefur aflað úr upplýsingakerfum hinna föllnu banka. Nefndin mun hafa tengt þessar upplýsingar saman til að fá heildstæða mynd af stöðu, viðskiptum og eignarhaldi bankanna fyrir hrunið. Rétt er að taka fram að frumvarpið tekur aðeins til þessara rafrænu gagnagrunna, ekki til ýmissa annarra gagna sem rannsóknarnefndin hefur aflað í stórum stíl, t.d. frá stjórnvöldum. Um aðgang að þeim mun fara eftir upplýsingalögum eins og segir í 5. mgr. 17. gr. laganna.

Rafrænir gagnagrunnar heyra almennt ekki undir upplýsingalög eins og ráða má af ýmsum úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Af þeim sökum er óvíst að almenningur geti að óbreyttu átt tilkall til aðgangs að gagnagrunni rannsóknarnefndarinnar á grundvelli upplýsingalaga. Þá verður að hafa í huga að þau gögn sem mynda umrædda gagnagrunna eru komin til rannsóknarnefndarinnar út af þeim umfangsmiklu heimildum sem henni voru fengnar til að afla upplýsinga. Þessar heimildir viku til hliðar öllum reglum um bankaleynd og þagnarskyldu. Almennt heyra þessar upplýsingar því undir þagnarskyldureglur þó að þær hafi nú verið færðar inn í gagnagrunna rannsóknarnefndarinnar. Þá hefur komið fram að meginhluti þeirra hefur út af fyrir sig enga sérstaka þýðingu fyrir hrun bankanna. Þegar stjórnvöld afla upplýsinga frá einstaklingum eða fyrirtækjum sem háðar eru þagnarskyldu gengur sú leynd jafnan framar aðgangsrétti almennings samkvæmt upplýsingalögum. Með hliðsjón af því ætti aðgangur að upplýsingum af þessu tagi ekki að vera mögulegur fyrr en eftir 30 eða 80 ár. Á hinn bóginn verður að ætla að umræddur gagnagrunnur geti haft mikla þýðingu fyrir fræðilegar rannsóknir í hagfræði og hagsögu. Mikill áhugi er þess vegna á því að opna með einhverjum hætti fyrir aðgang að þeim svo gagnagrunnarnir geti nýst áfram eftir að þeim verður skilað til Þjóðskjalasafns Íslands.

Í frumvarpinu er lögð til ákveðin leið til að ná því fram en jafnframt er leitast við að taka tillit til þeirra hagsmuna sem þagnarskyldureglur byggjast á. Ég geri ráð fyrir því að hv. allsherjarnefnd sem væntanlega fær frumvarpið til athugunar muni taka til skoðunar hvort þessi leið sé ákjósanleg eða hvort ástæða sé til að taka aðra stefnu. Þó er brýnt í þessu máli að gæta þess að rjúfa ekki friðhelgi einkalífs manna sem eru stjórnarskrárbundin mannréttindi.

Að lokum vil ég víkja stuttlega að síðasta efnisatriði frumvarpsins, virðulegi forseti. Það snýr að stöðu þeirra einstaklinga sem í þágu þings og þjóðar tóku að sér að annast þessa viðamiklu rannsókn. Þessi grein frumvarpsins miðar að því að koma í veg fyrir að nefndarmenn og aðrir sem unnið hafa að rannsókninni eigi persónulega yfir höfði sér málshöfðun út af rannsókninni eða ummælum í tengslum við hana. Jafnframt er tekið fram að íslenska ríkið beri ábyrgð á störfum þeirra eftir almennum reglum og því er ekki verið að takmarka möguleika þeirra sem telja á sér brotið að leita réttar síns. Ástæðan fyrir þessu ákvæði er einkum sú að í lögum um rannsóknina er rannsóknarnefndinni m.a. falið að birta viðkvæmar upplýsingar sem eiga almennt að fara leynt, t.d. út af reglum um bankaleynd en það er nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöðu nefndarinnar. Mögulega kunna einhverjir að telja brotið á rétti sínum með því. Tilvist rannsóknarnefndarinnar lýkur þegar skýrslunni verður skilað og því ekki unnt að höfða mál gegn henni, aðeins þeim einstaklingum sem áttu sæti í henni. Breytingin í frumvarpinu miðar að því að koma í veg fyrir að þeir bíði tjón af slíkum málsóknum. Þá auðveldar hún nefndarmönnum að taka afstöðu til þess hvað eigi að birta í skýrslunni án þess að þurfa að óttast að þurfa sjálfir að grípa til varna í dómsmálum út af því.

Mikið liggur við að vel takist til um úrvinnslu þeirrar viðamiklu rannsóknar sem Alþingi hleypti af stokkunum um síðustu áramót. Allt þarf að vera uppi á borðinu sem skýrir þá óheillaatburði sem hér gerðust fyrir ári síðan. Ábyrgðin hvílir á Alþingi.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjarnefndar nú að lokinni þessari umræðu.