138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[19:25]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um eitt erum við hv. þm. Þór Saari sammála og það er mikilvægi þess að þjóðin verði upplýst um hvað gerðist í aðdraganda hrunsins, efnahagshrunsins. Ég tel að við sem Íslendingar sem og erlendir ríkisborgarar berum það mikinn efnahagslegan skaða af þessu mikla hruni að við eigum öll rétt á að vita hvernig þetta gat gerst og ekki síður til að geta forðað því að þetta gerist aftur.

Ljóst er að miklir ágallar hafa verið í stjórnkerfi okkar. Það má rekja til þeirrar pólitíkur sem var rekin hérna og ástunduð árum saman. Það má líka rekja það til eftirlitsins sem átti að vera með þeirri stjórnsýslu sem hér var. Þingið, Alþingi Íslendinga, setti af stað rannsóknarnefnd sem á að kortleggja hrunið og opinbera fyrir okkur hverjir bera ábyrgð, hvar orsaka er að leita og það getur enginn annar að mínu mati og okkar í forsætisnefnd en þingið sjálft borið ábyrgð á þeirri skýrslu og útkomu rannsóknarnefndarinnar. Alþingi setti rannsóknarnefndina á fót, Alþingi ber ábyrgð á niðurstöðu og úrvinnslu mála. Það eykur virðingu þingsins og treystir þingið að norrænni fyrirmynd að fara með skýrsluna, vinna úr henni og koma með tillögur til úrbóta. Það verður hugsanlega erfitt að skipa þessa nefnd en hún verður skipuð og ég tel mjög alvarlegt að byrja á því áður en nefndin er skipuð að draga úr líkum á því að hún geti skilað trúverðugri vinnu. Hvernig eigum við að halda uppi ábyrgð Alþingis ef við höldum áfram að tala niður til þingsins? (Forseti hringir.)