138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[20:03]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að taka aftur til máls. Ég veit hins vegar að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir bað um andsvar og mér skilst að það hafi ekki sést í forsetastól áðan þannig að mér finnst eðlilegt að ég komi aftur upp af því að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir beindi spurningu til mín sérstaklega. Ég ákvað að reyna að hliðra til þannig að ég gæti svarað þeirri spurningu.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér sýnist sem Hreyfingin hafi tekið þá afstöðu miðað við þær ræður sem þau hafa flutt að reyna að skapa tortryggni um nánast allt í sambandi við þetta frumvarp, ekki bara það að þetta sé þingmannanefnd heldur miklu meira. Það kemur svolítið á óvart að miklu meira er tínt til núna eins og það að ekki séu tímamörk á vinnu nefndarinnar og það þýði að hér eigi að fara að gera eitthvað sem stenst ekki skoðun o.s.frv. Ég áttaði mig ekki á því að Hreyfingin væri komin á þær buxurnar að reyna að tortryggja meira en bara að það væru þingmenn sem ættu að fjalla um málin. Þykir mér heldur verra að fleira sé tortryggt.

Hér var sagt að það væri alveg geysileg gjá á milli þings og þjóðar og að aldrei hefði verið jafnlítið traust á þinginu og núna. Ég skoðaði sérstaklega síðustu Gallup-könnun, könnun sem var gerð í fyrravor, 2009. Þá treystu 35% þjóðarinnar þinginu, það er lág tala, en það er alls ekki einsdæmi að við séum með svona lágar tölur, því miður. Árið 2008 var traustið 42%, árið 2007 var það 29%, það var sem sagt minna en í vor. Árið 2006 var það 43% og árið 2005 var það 35%, sem sagt jafnlítið og í vor. Ég veit ekki hvort þetta eru góðar fréttir eða slæmar en þegar þetta var skoðað í vor var traustið á svipuðum nótum og það hefur verið fyrr, það var frekar lágt og hafði ekki hækkað en það hefur heldur ekki lækkað neitt sérstaklega.

Hv. þingmaður bað þá er hér stendur að útskýra orðalagið „að klifra upp bakið á einhverjum“. Ég notaði í ræðu minni að mér þætti verra ef þingflokkar væru að klifra upp bakið hver á öðrum, og þingmenn, með þetta mál og mér þykir það mun verra en ekki. Ég var að vonast til þess að það gæti skapast þverpólitísk samstaða um málið. (BirgJ: Hvað áttu við með „upp bakið“?) Það sem ég á við er að ákveðnir hópar hér inni, þingflokkar, vilja skapa tortryggni um þetta mál og láta þess vegna falla í ræðustóli orð eins og það að þetta mál hér sé einhvers konar samtryggingarkerfi þingmanna. Ég vísa því til föðurhúsanna, það er það ekki. Þegar fólk lætur svoleiðis orð falla hér segi ég að það sé að klifra upp bakið á öðrum þingmönnum hérna inni. Það er verið að skapa að mínu mati óþarfa tortryggni um þetta mál. Önnur þjóðþing sem lenda í hneykslismálum, og við erum ekkert fyrsta landið sem lendir í slíku … (BirgJ: Þetta er ekki hneyksli, þetta er kerfishrun.) Ýmislegt í þessu er hneyksli. Ég vil nefna Tamíla-málið í Danmörku. (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti biður þingmenn um að vera ekki með samræður við þann sem í ræðustól stendur. Til þess eru andsvörin.)

Takk, virðulegur forseti. Í öðrum þjóðþingum greiða þingnefndir úr þeim málum að lokum, þ.e. því sem eftir stendur. Og hvað stendur eftir þegar rannsóknarnefndin verður búin að vinna? Aðallega tvennt, breyta lögum, hugsanlega að draga einhvern fyrir landsdóm. Það breytir enginn lögum nema Alþingi og það dregur enginn fyrir landsdóm nema Alþingi. Ég meina, sjá menn fyrir sér einhverja nefnd aðra sem á að athuga hvort einhver á að fara fyrir landsdóm eftir að rannsóknarnefndin er búin að fjalla um það? Á svo að bera það inn í þingið þegar sú nefnd er búin að komast að niðurstöðu, já eða nei? Það er bara einhvern veginn út í hött að hafa það vinnulag á.

Auðvitað á rannsóknarnefndin að skila skýrslunni hingað og við verðum svo að taka þennan kaleik. Þegar ég segi að menn séu að klifra upp bakið hver á öðrum er það ekkert illa meint, en mér þykir það verra. Ég hélt að Hreyfingin mundi standa með okkur að þessu máli. Ég hélt það af því að ég hélt að hún vildi ekki skapa óþarfaóróleika um þetta mál. Ég tel að það sé verið að skapa óþarfaóróleika um þetta mál. Það er ekkert að fela, þingið hefur ekkert að fela. Rannsóknarnefndin mun skila af sér mikilli skýrslu, við tökum hana hér inn, allir fá að sjá hana og svo vinnum við úr henni. Það þarf að breyta lögum og svo vitum við ekkert hvernig þetta fer með landsdóminn en enginn nema þingið (Forseti hringir.) getur tekið á því.