138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[20:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta kemur úr hörðustu átt, að segja að ekki eigi að sá fræjum tortryggni um þetta mál. Svo er nýbúið að segja í ræðustól að þetta mál sé meira og minna samtrygging þingmanna. Auðvitað er verið að sá fræjum tortryggni, virðulegur forseti.

Rannsóknarnefndin sem núna vinnur og hefur unnið lengi er utanaðkomandi aðili. Hún á að skapa þetta traust, hún á að skapa traust um niðurstöðu um af hverju bankahrunið varð. Hún á að koma með þá niðurstöðu, hún er að rannsaka það. Síðan á þingið að taka afstöðu til þess hvort það vilji breyta lögum og hvort það vilji draga einhvern fyrir landsdóm. Hugsanlega þarf að skoða eitthvað meira þannig að það er ákveðin opnun á það í þessu máli. Rannsóknarnefndin er þessi utanaðkomandi aðili.

Það er rétt að ég hefði svo sannarlega óskað að það væri þverpólitísk samstaða um þetta. Við höfum farið í gegnum tvö önnur svona mál nýlega. Annað var þegar embætti sérstaks saksóknara var sett upp, þá náðist þverpólitísk samstaða um það mál. Það var mjög mikilvægt, virðulegur forseti, til að ná trausti á því hvernig átti að halda á þessu bankahruni. Þegar Björn Bjarnason, þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra, réði sérstakan saksóknara kallaði hann til allsherjarnefnd til að ræða það við hana til þess að skapa traust á embættinu. Og það tókst. Enginn gerði athugasemd, við vorum sátt við það ferli. Stundum þarf maður að skapa traust.

Þegar við ákváðum líka í þinginu að setja niður rannsóknarnefndina skapaðist traust. Það var þverpólitísk samstaða um það mál og menn teygðu sig hver til annars eins langt og þeir treystu sér til. Auðvitað var ekki hægt að fallast á allar hugmyndir allra. (Gripið fram í.)

Núna er þetta líka reynt en þær tillögur sem komu frá Hreyfingunni voru ekki aðgengilegar þannig að það náðist ekki. Ég tel til mikils vinnandi (Forseti hringir.) í nefndinni sem fær þetta mál til umfjöllunar að reyna að skapa traust um það ef það er nokkur vilji til þess, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, á milli þingflokka.