138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf erfitt að væna fólk um ósannindi. Mig langar ekki til þess að gera það hér, en þegar maður sér tölvupóstssamskiptin og að það er sérstaklega dregið fram að skuldastaða landsins megi ekki verða verri, sérstaklega ekki fyrir kosningar, hljóta menn að spyrja sig: Hvað er eiginlega í gangi? Vel að merkja var tölvupósturinn umræddi ekki bara á milli Marks Flanagans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þáverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytinu, Indriða H. Þorlákssonar, heldur fór líka afrit á fjármálaráðherra þannig að fjármálaráðherrann vissi af því að menn voru að reyna að hylma yfir ákveðin atriði sem voru óþægileg. Þetta er eins og alltaf, menn vilja ekki snerta á óþægilegu atriðum. Menn vilja ekki láta alþjóð vita, sérstaklega ekki fyrir kosningar, af þessum óþægilegu og erfiðu atriðum.

En enn og aftur snýr þetta að vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í þessu máli og það er fyllsta ástæða fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að halda nú vöku okkar varðandi hvernig hún ætlar að halda áfram með málið. Sá fundur sem nú er í gangi hjá formönnum stjórnmálaflokkanna verður að enda bara á einn veg, að virt verði það samkomulag sem gert var fyrir helgi og að farið verði markvisst yfir hvern einn og einasta punkt í því samkomulagi en ekki farið yfir það á handahlaupum til þess eins að fullnægja sálarró ráðherra í ríkisstjórn.