138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þannig er mál með vexti að við störfum hér eftir dagskrá sem samkomulag tókst um um helgina á fundum með forseta þingsins. Þá var hripað niður á blað samkomulag sem við formenn stjórnarandstöðuflokkanna vorum beðnir um að staðfesta, sem við og gerðum. Við vísuðum þar m.a. til málsmeðferðar sem við töldum vera samkomulag um í framhaldinu.

Í millitíðinni skilst mér að þetta samkomulag sé fyrst og fremst á milli stjórnarandstöðuflokkanna og forsetans, en þann mikilvæga hlekk vantar í keðjuna að stjórnarflokkarnir sjálfir hafa ekki skuldbundið sig til þess að fara eftir samkomulaginu. Þess vegna er dagskráin í ákveðnu uppnámi og umræðan er um það hvort í raun sé samkomulag sem hægt sé að byggja þingstörfin (Forseti hringir.) á. Nú reynir því á að forseti þingsins gangi (Forseti hringir.) eftir því að samkomulagið gildi um alla þá sem málið varðar.