138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér ríkir ákveðin ringulreið að mínu mati. Hér tala menn í kross um hvernig staðan er og ég sem þingmaður sem á ekki aðild að þessum þingflokksformannafundum eða formannafundum, er að fara að halda ræðu þegar menn hafa tæmt sig hér í þessum lið um fundarstjórn forseta. Það væri vissulega ágætt að vita hvort það er á hreinu hvernig staðan er varðandi þetta samkomulag af því að það er grundvöllurinn fyrir því hvernig umræður munu verða hérna. Ég vil því ítreka þá beiðni sem fram hefur komið hjá hv. þingmönnum að það verði gert örstutt hlé, það þarf ekki að vera langt, til þess að við komumst til botns í þessu máli. Það virðist vera einhver ágreiningur uppi um það, vonandi ekki mikill, hvort og hvernig fjárlaganefnd mun fara í gengum þessa 16 liði sem voru í samkomulaginu, að því er mér telst til, og fjallað er um að fjárlaganefnd eigi eftir að fara nánar yfir.