138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg rétt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, hér var gert samkomulag fyrir helgi. Að því stóðu annars vegar fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna og hæstv. forseti. Þessi mál voru borin undir forustumenn ríkisstjórnarinnar, eftir því sem ég hef upplýsingar um, sem samþykktu þessa niðurstöðu. Síðan unnu menn í góðri trú í samræmi við það.

Það er hins vegar alveg ljóst mál að þrátt fyrir góðan vilja hæstv. fjármálaráðherra, og ég hygg þá forustu hins stjórnarflokksins, hefur þetta mál ekki gengið upp, það er bara ekki flóknara en það. Það er enginn vafi á því í hugum okkar stjórnarandstæðinga hvað þetta samkomulag þýðir, það er á tiltölulega góðri íslensku og auðvelt að lesa það og skilja. En engu að síður hefur það vafist fyrir mönnum sem eiga þá að hrinda málinu í framkvæmd. Vil ég vil þess vegna hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að eiga frekari samtöl við sína ágætu félaga til þess að hægt sé að halda áfram að vinna í anda þess góða samkomulags sem þarna náðist eftir heilmikið streð núna fyrir helgi. Mér fyndist mjög skaðlegt ef við gætum ekki (Forseti hringir.) unnið áfram í samræmi við þá góðu niðurstöðu sem flestir fögnuðu á föstudagskvöldið.