138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er náttúrlega yfirgengilegt, þessi svikabrigsl og tortryggni sem vaða hér uppi og að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skuli halda því fram að farið hafi verið á bak við hann eða að eitthvað sem sagt var við myndun minnihlutaríkisstjórnarinnar síðasta vetur hafi verið svikið. Er ekki hið rétta að formaður samninganefndarinnar fundaði sérstaklega með formanni Framsóknarflokksins og upplýsti hann í trúnaði á útmánuðum, ég hygg oftar en einu sinni, nákvæmlega um framvindu mála og hvert væri verið að halda í samningaviðræðunum? Ætlar hv. þingmaður að neita því? Ætlar hv. þingmaður að neita því að ég fór tvisvar ef ekki þrisvar fyrir utanríkismálanefnd á þessum tíma og upplýsti hana jafnóðum um þróun mála og í hvað væri verið að reyna að stefna viðræðunum, þar á meðal að ná þeim upp úr þeim farvegi sem þær höfðu verið fastar í og fá viðsemjendur okkar til að ljá máls á annars konar lausn, eins og kemur skýrt fram í nefndum tölvupósti?

Þar kemur líka fram að málstað Íslands var haldið mynduglega á lofti, þar á meðal voru hryðjuverkalögin notuð. Lesi menn póstinn sjá þeir að hann er vitnisburður um að stutt var eins vel við Íslands í þessum efnum og kostur var. (Gripið fram í: Það er þitt mat.)

Í þriðja lagi hafa þessi gögn verið aðgengileg öllum alþingismönnum frá því í júní sl. (SDG: Frá því hvenær?) Frá því í júnímánuði sl. (Gripið fram í.) Að láta sem hér séu nýjar fréttir á ferð fær náttúrlega ekki staðist. (Gripið fram í.) Já, eðli málsins samkvæmt vegna þess hvernig þessi gögn eru. Það er útlistað og útskýrt af hverju tiltekinn hluti gagnanna þarf að vera í trúnaðarmöppum vegna þess að birting þar er ekki heimil samkvæmt samskiptareglum milli ríkja. (Gripið fram í.) Þannig er það. Ég tel að fjaðrafokið sem hv. þingmenn eru að reyna að blása upp út af þessu sé með öllu tilefnislaust. Þetta eru eðlileg samskipti milli aðila sem þarna áttu sér stað og eðlilega með þau farið á allan hátt.